30. jan. 2024

Kia í samstarf við Uber

Kia undirritar viljayfirlýsingu um að bjóða Uber bílstjórum upp á PBV-bíla

PBV-bílar frá Kia munu bjóða upp á framsæknar umbætur í samgöngum og styðja Uber við að ná markmiði sínu um engan útblástur fyrir árið 2040.

Forsmekkurinn að þessu var gefinn með forsýningu á Kia PV5-hugmyndabílnum sem fram fór á CES 2024. Kynning Kia á PBV-bílum á markað verður í þremur fösum sem hefjast árið 2025 og miða að því að sýna hvernig PBV-bílar koma til með að breyta landslaginu í samgöngum næsta áratuginn.

Nánar um innleiðingu Kia á PBV-bílum er hægt að horfa á og skoða hér.

Fyrsti PBV-bíllinn fer í framleiðslu árið 2025

Kia Corporation og Uber undirrituðu viljayfirlýsingu á CES-sýningunni (Consumer Electronics Show) í Las Vegas á dögunum þar sem fyrirtækin skuldbinda sig til að vinna saman að fyrirhugaðri þróun og innleiðingu PBV-bíla frá Kia.

Með það að markmiði að auka rafbílaúrval Uber og styðja við markmið þessarar leiðandi leigubílaþjónustu á heimsvísu um engan útblástur árið 2040 mun samstarfið leggja áherslu á framleiðslu PBV-bíla hjá Kia með hámarksávinningi fyrir bílstjóra og bílaflota. Þetta verður hluti af PBV-stefnu Kia (Platform Beyond Vehicle) á þessu sviði samgöngumarkaðarins.

„PBV-bílar munu gegna lykilhlutverki í mótun samgönguleiða og með samstarfi við Uber stefnir Kia að því að bjóða upp á leiðandi tækni í bílaiðnaðinum með háþróuðum hugbúnaði og þjónustu til að bæta upplifun í leigubílaakstri,“ sagði SeungKyu (Sean) Yoon, forstjóri og framkvæmdastjóri Kia North America og Kia America. „Uber-bílstjórar geta einnig valið úr fjölbreyttu úrvali Kia-bíla sem auðveldar rafvæðingu flotans og hjálpar bæði Kia og Uber að ná sjálfbærnimarkmiðum sínum.“

Framtíðin í heildrænum og sjálfbærum samgöngulausnum

Tilgangur samstarfsins fyrir Kia er að fyrirtækið geti fundið bestu forskriftirnar fyrir PBV-bílana sína, með möguleika á frekari samþættingu tækni og þjónustu til hagsbóta fyrir bæði bílstjóra og notendur leigubíla. Markmið samstarfsins er einnig að búa til hugmyndabíla og frumgerðir og hefja framleiðslu á PBV-bílum sem eru sniðnir að þörfum bílstjóra hjá Uber.

„PBV-bílar munu gegna lykilhlutverki í samgöngubyltingunni. Þetta samstarf mun efla þróun Kia á PBV-bílum með bættum eiginleikum fyrir þarfir bílstjóra og farþega,“ sagði Sangdae Kim, yfirmaður framleiðsludeildar PBV-bíla hjá Kia. „Áherslan verður lögð á háþróaðan hugbúnað og þjónustu með samþættingu gagnvirks upplýsinga- og afþreyingarkerfis bílsins og framúrskarandi öryggistækni.“

Hægt er að skapa nýjar upplifanir fyrir bílstjóra og farþega með því að þróa bestu rekstrarlausnirnar og byggja upp tengdar akstursupplifanir fyrir alla. Sérsniðið akstursumhverfi, þar á meðal sérhæfð hita- og loftstýring og hljóðstýring, ásamt gagnvirkum afþreyingarkerfum í aftursætum, geta einnig fylgt í kjölfarið.

Atvinnubíllinn endurskilgreindur

Kia og Uber munu vinna saman að því að finna leiðir til að draga úr heildarkostnaði bíleigenda með því að greina ýmsa valkosti PBV-bíla og hugsanlegt framboð á BaaS-áskrift (Battery as a Service) til að lækka upphafskostnað við bifreiðakaup. Með ávinningi bæði fyrir Uber og bílstjóra mun samstarfið einnig auka vöxt Kia Flex-áætlunarinnar í Norður-Ameríku, en fyrirhugað er að bjóða hana á alþjóðavísu í nánustu framtíð.

Kia Flex er þegar í notkun í nokkrum fylkjum Bandaríkjanna og gerir ökumönnum kleift að velja Kia-bíla til notkunar hjá Uber. Útbreiðsla Kia Flex mun bjóða Uber-bílstjórum upp á ítarlegan ökutækjapakka, sem inniheldur meðal annars rafbílavalkosti, tryggingar og viðhald.

„Bílstjórar Uber eru þegar byrjaðir að nota rafbíla og eru sex til sjö sinnum fljótari að tileinka sér rafbílanotkun en almenningur í Bandaríkjunum og Evrópu,“ sagði Susan Anderson, aðstoðarforstjóri viðskiptaþróunar á heimsvísu. „Það er frábært fyrir okkur öll vegna þess að þegar leigubílstjórar skipta í rafbíla leiðir það af sér þrefaldan til fjórfaldan ávinning í útblæstri samanborið við meðalökumann sem skiptir yfir í rafbíl. Með því að vinna með Kia og veita fyrirtækinu innsýn okkar stefnum við að því að auka eftirsóknina og lækka kostnað við rafbílanotkun þannig að þeir verði eðlilegri valkostur fyrir fleiri ökumenn.“

Notkun á greiningar- og forvarnarþjónustu Kia Connect mun auka sparnað í rekstri með gagnadrifnum lausnum sem greina merki um hugsanlegar bilanir og lágmarka viðhaldskostnað og stöðvunartíma.

PBV-áætlun Kia sem var afhjúpuð fyrr í vikunni á CES-sýningunni felur í sér áratugalanga áætlun í mörgum liðum sem mun leiða til þess að PBV-bílar munu gjörbylta samgöngumarkaðnum, á sama tíma og þeir hjálpa til við að efla metnað Hyundai Motor Group í tengslum við þjarkatækni, háþróaðar samgöngur í lofti og sjálfvirkan akstur. Framleiðsla sérsmíðaðra bíla mun í fyrstu byggjast á kynningu á nýjum, einingaskiptum bíl sem kallast Kia PV5 og svo er áætlað að fleiri útfærslur verði settar á markað, þar á meðal: PV5-kassabíll, PV5-sendiferðabíll, PV5-undirvagn með stýrishúsi, sjálfkeyrandi PV5-leigubíll og PV5-pallbíll. Þó að allar útfærslur verði byggðar á sömu sveigjanlegu einingum grunngerðarinnar mun hver og ein bjóða upp á einstaka eiginleika, með frekari fínstillingum fyrir Uber sem eru sérsniðnar fyrir leigubílamarkaðinn.