15. jan. 2024

Kia endurskilgreinir atvinnubíla með PBV bílum

Sérsniðin farartæki og lausnir munu auka fjölhæfni og bjóða upp á takmarkalausa möguleika, bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga

PBV bílar Kia kjarna „Beyond Mobility“ með sveigjanleika sem hefur svör við öllu.

  • PBV-byggingarlagið býður notendum upp á að endurskilgreina hvernig rými og samgöngur geta lagað sig að þörfum þeirra í gegnum einstakan sveigjanleika framúrstefnulegrar einingahönnunar.
  • Fimm Kia PBV-hugmyndabílar voru kynntir til sögunnar á CES 2024 – þrjár útfærslur af PV5-hugmyndabílnum, PV7-hugmyndabíllinn og PV1-hugmyndabíllinn. Kia PV5-hugmyndabíllinn fer í fjöldaframleiðslu árið 2025.
  • Þriggja fasa PBV-vegvísir mun umbreyta samgöngum eins og við þekkjum þær, með fleiri gerðum, háþróaðri hugbúnaði og sérsniðinni þjónustu

Sjá hér magnað myndband frá Kia um hvernig PBV-bílar koma til með að nýtast í ýmsum aðstæðum.

Einingaskipt ökutæki.

Kia kynnti PBV-framtíðarsýn sína á CES 2024-sýningunni (Consumer Electronics Show) í Las Vegas, en sýningin er ein stærsta tæknisýning í heiminum. Framleiðsla PBV-bíla mun í fyrstu byggjast á kynningu á nýju, einingaskiptu ökutæki, sem forsýnt er með Kia PV5-hugmyndabílnum.

Þessi framtíðarsýn var kynnt til sögunar samhliða fjölþættri áætlun sem mun gjörbylta samgöngumarkaðnum á grunni PBV-bíla og á sama tíma koma að gagni fyrir markmið Hyundai Motor Group tengdum þjarkatækni, háþróuðum samgöngum í lofti og sjálfvirkum akstri.

PBV-bílar Kia er heildræn samgöngulausn sem sameinar sérsniðna rafbíla og háþróaðar hugbúnaðarlausnir sem byggja á hugmynd Hyundai Motor Group um hugbúnað fyrir allt, svokallaða SDx-áætlun. PBV-bílar Kia munu opna dyr að nýjum rekstrarmöguleikum og lífstíl með því að endurskilgreina skilning okkar á rými með háþróuðu og sérsniðnu innanrými sem veitir fullkomið frelsi og sveigjanleika.

„Framleiðsla Kia á PBV-bílum endurspeglar framtíðarsýn okkar um að horfa út fyrir viðteknar hugmyndir um hinn hefðbundna bíl með því að uppfylla óuppfylltar þarfir ólíkra viðskiptavina og samfélaga með sérsniðnum ökutækjum og þjónustu sem hentar hverju markaðssvæði og viðskiptaaðstæðum fyrir sig,“ sagði Ho Sung Song, forstjóri Kia.

„PBV-bílar Kia munu knýja nýsköpun í viðskiptum í gegnum viðskiptavinamiðað stjórnunarkerfi okkar, sérþekkingu á fjöldaframleiðslu rafbíla og hraða þróun SDx-áætlunar og tengdan framtíðarrekstur Hyundai Motor Group. Okkur er mikil ánægja að sýna að við erum tilbúin til að taka fyrst allra skrefið inn á alþjóðlegan markað PBV-bíla,“ bætti hann við.

Sýn um samgöngur framtíðarinnar.

Í kjölfar upphafs framleiðslu PBV-bíla mun Kia leggja áherslu á að bjóða upp á fjölbreytt úrval sérsniðinna bíla sem koma til með að uppfylla einstaklingsbundnar kröfur viðskiptavina. Kia álítur nýja nálgun sína við PBV-bíla geta hjálpað til við að leysa samgönguáskoranir einstaklinga og fyrirtækja sem búa við skerta samgönguvalkosti með því að slíta sig frá því takmarkandi og samleita úrvali bíla sem boðið er upp á í dag.

Framleiðsla Kia á PBV-bílum felur í sér ósvikna nálgun þar sem viðskiptavinurinn er í forgrunni og verður byggð upp á grunni sérstakrar rekstraráætlunar sem samþættir bíla, hugbúnað og framtíðartækni til að skila virðisauka.

PBV-vegvísir vörumerkisins, sem skipt er upp í þrjá aðgreinda fasa, sýnir hvernig PBV-bílar Kia koma til með að skipta höfuðmáli í útfærslu SDx-áætlunar samstæðunnar í formi búnaðar sem býður upp á sérsniðnar lausnir í samræmi við notkunarmynstur viðskiptavina.

Í fyrsta fasa kynnum við til sögunnar Kia PV5, fjölhæfan rafbíl sem er sérhannaður fyrir mikilvægan atvinnurekstur á borð við leigubílaakstur, flutninga og verktakavinnu með miklum möguleikum á sérsniðinni uppsetningu eftir fjölbreyttum þörfum viðskiptavina. Í gegnum enn betri gagnatengingu milli bíla og ytri gagnaveita, svo sem fyrir upplýsingar um akstursleiðir og afhendingu, er hægt að hafa umsjón með mörgum bílum í einu sem sameinaðir eru í flota í hugbúnaði. Tilkoma slíkra sérsniðinna vinnubílaflota og sértækra PBV-lausna skilar sér í færri stöðvunum og aukinni hagkvæmni.

Í fasa tvö verður PBV-línan fullmótuð og PBV-bílar verða þróaðir yfir í samgöngutæki með gervigreind sem nýta gögn til að eiga samskipti við notendur og tryggja að bílarnir séu alltaf búnir nýjasta búnaði. Innbyggð PBV-lausn býður upp á sérsniðna og hnökralausa upplifun af tækjum og hugbúnaði. Á sama tíma munu ný rekstrarform í tengslum við þjarkatækni og aðrar framtíðartæknilausnir líta dagsins ljós.

Í þriðja fasa munu PBV-bílar Kia þróast yfir í samgöngulausnir sem bjóða upp á mikið sérsnið og sérhönnun í gegnum samþættingu við umhverfisvænar samgöngulausnir framtíðar. Á þessu stigi munu PBV-bílar Kia umbreytast í vettvang þar sem hvers kyns hugmyndir geta orðið að veruleika. Sítengdir, sjálfstýrðir bílar verða hluti af samræmdu stýrikerfi snjallborgarinnar. Þegar hinn ofurtengdi heimur verður loks að veruleika, þar sem fólk, PBV-bílar og samfélagslegir innviðir tengjast á hnökralausan máta, munum við ljúka upp dyrum að algjörlega nýjum lífsstíl með því að skapa öflugt PBV-vistkerfi á grunni framtíðartækni Hyundai Motor Group fyrir sjálfvirkan akstur, háþróaðar samgöngur í lofti, þjarkatækni og orkunet.

Hönnun sem auðveldar líf notenda.

Tæknilausnin „Easy Swap“ (einföld skipti), sem ætlað er að koma til móts við fjölbreyttar kröfur viðskiptavina, skilar sér í einum undirvagni sem hægt er að nota fyrir ólíkar samgönguþarfir. Fyrir aftan fast stýrishús, eða „ökumannssvæði“, er hægt að setja upp útskiptanlegar yfirbyggingar með rafsegultengingum og vélrænum tengingum og nýta þannig PBV-bílinn sem leigubíl á daginn, sendibíl að nóttu til og frístundabíl um helgar.

Einingabyggingarlagið er einfaldað enn frekar með rafsuðulausri „Dynamic Hybrid“-yfirbyggingu, sem býður upp á sveigjanleika í lengd yfirbygginga í samræmi við notkun bílsins. Með notkun sterkra stálröra og sérhannaðra fjölliða eru dæmigerðir íhlutir um 55 prósent léttari án þess að stífni skerðist. PV5-bíll Kia er afhentur í stöðluðu, þægilegu setti og Dynamic Hybrid-tæknin býður upp á fljótlegar og einfaldar breytingar á uppsetningu hjá viðskiptavini.

Hönnun PBV-bíla Kia er innblásin af öflugum, einföldum og hugvitsamlegum verkfærum og grundvallast á svo miklu meira en fagurfræðinni einni. Meginmarkmið Kia er að tryggja að PBV-bílar fyrirtækisins séu einfaldir í notkun, algerlega óháð því hvar, hvenær eða hvernig þeir eru notaðir.

Hver einn og einasti PBV-bíll deilir sameiginlegum hönnunargæðum sem endurspegla traust og kraftmikið eðli bílsins og skapa yfirbragð áreiðanleika og afkastagetu, hvort sem nota á bílinn til að flytja fólk, flytja vörur eða uppfylla þarfir fyrir vörustjórnun eða einkaakstur. Hér er ekki fyrir að fara óþarfa skreytingum heldur er hvert atriði hannað til að þjóna gagnlegum tilgangi sem auðveldar líf notenda bílanna, eins og skýrt kemur fram í hugmyndabílunum sem kynntir voru á CES.

Einfaldir en um leið sterkir yfirborðsfletir og afgerandi hönnun sameina PV5-gerðirnar, sem þó er ætlað að gegna ólíkum hlutverkum. Á öllum bílunum afhjúpa stórar hurðir einstaklega rúmgóðar, stólpalausar dyr sem tryggja áreynslulausa inn- og útgönguleið. Mikið hjólhaf og rafbílaundirvagninn bjóða upp á vítt rými með flötu gólfi þar sem farangurs- og notkunarmöguleikarnir eru nánast óendanlegir. Upplifun ökumannsins er einnig endurbætt með ökumannsrými með skrifstofuyfirbragði og stýri sem hægt er að leggja saman og nota sem skrifborðslampa.

Sjálfbærni er kjarninn í hönnunarstefnu Kia fyrir PBV-bílana. Mikil notkun á efnum á borð við lífplast, endurunnið plast, lífmálningu, endurunnið PET-áklæði, flóka og garn og lífrænan pólýúretansvamp, takmarkar ekki aðeins umhverfisáhrif núna og þegar fram líða stundir heldur skilar hún einnig einstökum sjónrænum og áþreifanlegum þokka sem skapar ný fagurfræðileg gildi.

Innblástur raungerist.

Um leið og Kia tryggir samfellu í hönnun á milli ólíkra bíla mun fyrirtækið skapa vistkerfi sem stuðlar að tengingu á milli PBV-bíla. Ítarleg einingahönnun PBV-bílanna, þar með talinn möguleikinn á að nota sama búnað í öllum bílunum, býður upp á aukinn sveigjanleika og takmarkalausa möguleika til að koma til móts við þarfir bæði fyrirtækja og einstaklinga.

Í fyrsta fasa verða ýmsar útfærslur af PV5 í boði, þar á meðal grunnútfærsla, sendibílaútfærsla, kassabílaútfærsla og útfærsla undirvagns með stýrishúsi. Í framtíðinni hyggst Kia einnig setja á markað sjálfkeyrandi leigubíl sem þróaður verður í samstarfi við Motional (samvinnuverkefni HMG og Aptiv) og ætlað er að bjóða upp á byltingarkennda sjálfkeyrandi leigubílaupplifun.

Í fasa tvö bætast tveir nýir bílar við PBV-fjölskylduna, PV7 og PV1, þar sem unnið verður með stýrihúss- og yfirbyggingarkerfi til að auka enn frekar samspil og tengingu milli bíla á grundvelli einingahönnunarinnar.

  1. PV7 — Stærsti bíllinn í línunni, með meira innanrými, meiri akstursdrægni og auknu notagildi.
  2. PV1 — Minnsti bíllinn í línunni, sérhannaður fyrir lipra flutninga yfir styttri vegalengdir, með aksturseiningum sem lágmarka beygjuradíus, jafnvel í þrengstu rýmum.
  3. PBV-einingahönnun — Samræmt brautakerfi í lofti og á gólfi og hliðarþiljum bílsins, sem og á ytra byrði, þýðir að einfalt er að sérsníða bílinn eftir þörfum hvers og eins viðskiptavinar. Þetta kerfi býður upp á snurðulausan flutning vara og varnings á milli bíla í skápum og grindum. Brautirnar í þessu kerfi einfalda flutning varnings á milli bíla á meðan einingahönnun „flísanna“ og aukahlutanna, á borð við hátalara og hillur, býður upp á ótakmarkaðan sveigjanleika fyrir ýmis konar aðstæður.

„PBV-bílar Kia eru upphaf nýs tímabils með hnökralausum lausnum fyrir daglegan rekstur og fjölbreyttan lífsstíl. Við vonumst til að auðvelda og bæta líf viðskiptavina okkar, hvort sem þeir eru í kyrrstæðum bíl eða á ferðinni, með því að bjóða upp á einstakan sveigjanleika og sérsnið í gegnum framúrstefnulega einingahönnun,“ sagði Karim Habib, aðstoðarforstjóri og yfirmaður Kia Global Design.

„PBV-bílar eru ekki niðurnjörvaðir af staðsetningu eða takmörkunum hins hefðbundna rýmis og gera notendum þannig kleift að endurhugsa lífstíl sinn og nálgun við vinnu,“ bætti hann við.

Svör við öllu.

Til að fullnýta þau tækifæri sem PBV-bílarnir hafa í för með sér ætlar Kia að hleypa af stokkunum sérstöku rekstrarkerfi, sem felur í sér alla þætti ferlisins, allt frá vörulínunni til samþættingar hugbúnaðarlausna og alþjóðlegs samstarfs.

Vörulínan sem lýst er hér að ofan verður útvíkkuð með því að innleiða þróunarferli sem byggir á þátttöku viðskiptavina, þar sem tillögur og athugasemdir viðskiptavina verða nýttar til að þróa sérsniðnari lausnir fyrir ólíka notkun.

Kia tekur mikilvæg skref til að koma til móts við fjölbreyttar kröfur viðskiptavina með því að reisa sérstaka PBV-rafbílaverksmiðju í Autoland Hwaseong í Kóreu. Þessi verksmiðja mun byggja á blandaðri framleiðsluaðferð sem sameinar notkun færibanda og hólfaskiptrar framleiðslu. Í gegnum samvinnu við alþjóðlega samstarfsaðila getur Kia boðið upp á breytanlegar útfærslur mismunandi PBV-lína, sem koma til með að henta mismunandi þörfum viðskiptavina. Verksmiðjan á að taka til starfa árið 2025 og verður árleg afkastageta hennar 150.000 einingar.

Lausnir fyrirtækisins fyrir IVI upplýsinga- og afþreyingarkerfi, FMS-flotastýringarkerfi og hleðslu munu nýta hugbúnaðargögn bíla og gervigreindartækni, sem býður upp á enn frekara sérsnið lausna fyrir viðskiptavini, forvirkar viðhaldstillögur til að takmarka stöðvanir og hleðsluáætlanir sem eru sniðnar að rekstrarumhverfi viðskiptavinarins.

IVI upplýsinga- og afþreyingarkerfi Kia í PBV-bílum miðar að því að bæta daglegt líf með því að greina kjörstillingar notenda í rauntíma og bjóða upp á viðeigandi gögn hverju sinni. Það veitir aðgang að forritaversluninni PBV App Market frá Kia og forritum þriðju aðila og tryggir að viðskiptavinir séu alltaf með nýjasta upplýsinga- og afþreyingarefnið til taks. Tenging við viðskiptatengd forrit sem áður voru takmörkuð við fartæki eykur þægindi og áreiðanleika upplýsinga, auk þess að tryggja heildstæða notendaupplifun á milli mismunandi vélbúnaðarþátta.

Flotastjórnunarlausnin fyrir PBV-bíla Kia gerir viðskiptavinum kleift að hafa skilvirkt eftirlit með mörgum bílum. Hún veitir innsýn í sölu, birgðir og sendingar og skilar þannig betri samgöngum og vörustjórnun í rekstri. Eiginleikarnir fela í sér eftirlit með birgðum, hitastýringu og snjalla leiðsögn, sem skilar sér í aukinni sparneytni. Lausnin einfaldar stjórnun flota með rauntímagögnum og gervigreind til að hægt sé að sjá fyrir þörf á viðhaldi og tryggja hagkvæmni í rekstri.

Hleðslulausn Kia fyrir rafbíla fínstillir hleðsluáætlanir til að hámarka sparneytni. Hún tekur tillit til hleðslustöðu rafhlöðunnar, akstursleiða, áætlana og aksturshléa. Þar að auki stefnir Kia að því að bjóða upp á heildarorkulausn í gegnum háþróaða hleðsluinnviði, þar sem hægt verður að nýta öflugar rafhlöður til að knýja fartæki og neyðarbúnað. Þetta verður gert í gegnum nýjungar á borð við V2X-tækni, sem miðar að því að bíllinn sé fyrir allt.

Þessi samþætting IVI upplýsinga- og afþreyingarkerfis, FMS-flotastýringarkerfis og hleðslukerfa verður í boði í einum hugbúnaðarpakka, sem aftur býður upp á að lausnir séu sérsniðnar að mismunandi rekstrarumhverfi. Kia hefur stofnað til samstarfs við fyrirtæki á borð við Uber, Coupang, CJ Logistics, Kakao Mobility og Dubai Taxi Corporation til að bæta enn frekar PBV-rekstraráætlun sína.

„Framleiðsla PBV-bíla er hápunktur viðskiptavinamiðaðrar rekstraráætlunar Kia. Markmið okkar er að þróa PBV-bíla og lausnir sem eru sérsniðnar að rekstrarumhverfi samstarfsaðilanna og við erum fullviss um að þetta öfluga samstarf verði drifkraftur í stefnu okkar að því að bjóða upp á sjálfbærar samgöngulausnir,“ sagði Pierre-Martin Bos, varaforseti og framkvæmdastjóri PBV-viðskiptadeildar Kia.

Framtíðarrekstur og samstarf í tengslum við hann mun efla samþættingu þjarkatækni, háþróaðra samgangna í lofti og sjálfvirks aksturs sem ætlunin er að verði hluti af heildstæðri PBV-samgöngulausn innan snjallborgarumhverfis.

  1. Þjarkatækni — Kia nýtir þjarkatækni, þar á meðal þjarka frá Boston Dynamics' Stretch og Spot, til að auka sjálfvirkni í vörustjórnun og gæðastjórnun allan sólarhringinn í snjallverksmiðjum fyrirtækisins. Þetta miðar að því að finna ný viðskiptatækifæri í gegnum samstarf sem og að ýta undir nýsköpun.
  2. Háþróaðar samgöngur í lofti — Kia er í samstarfi við Supernal, hlutdeildarfélag Hyundai Motor Group, til að flýta fyrir þróun snjallborga með því að þróa fjölþættar þjónustu- og samgöngumiðstöðvar á grundvelli háþróaðra samgangna í lofti.
  3. Sjálfvirkur akstur — Samstæðan mun ásamt Motional þróa sjálfvirkan akstur frá einkabílnum yfir í atvinnubíla. Þetta ferli er nú þegar hafið með áætlunum um þróun sjálfkeyrandi PV5-leigubílsins. Þetta samstarf miðar að því að sameina samkeppnishæfni Kia og háþróaðar Level 4-tæknilausnir Motional fyrir sjálfvirkan akstur til að fjölga viðskiptatækifærum á alþjóðlega vísu.

Með þessu mun hugbúnaðargeta Hyundai Motor Group þróast út fyrir bílana og yfir á ýmis önnur svið tengd samgöngum, s.s. þjarkatækni, flugför og sjálfvirkan akstur, með það að markmiði að auðvelda rekstur, stjórn og stjórnun um leið og þróunin leiðir af sér ofurtengingu á milli fólks og hluta.

Þróun „umfram samgöngur“, á sjálfbæran máta.

PBV-bílar Kia munu gerbreyta lífi viðskiptavina með áður óþekktum sveigjanleika. Framúrstefnuleg hönnun býður upp á nýja gerð innanrýmis sem skilar betri framtíð og útvíkkar rými, bæði í kyrrstæðum bíl sem og á ferðinni, fyrir daglegt líf, vinnu og tómstundir.

Frá því að Kia endurskilgreindi sig árið 2021 hefur fyrirtækið lagt sig fram um að aðlagast hröðum breytingum á markaði í gegnum áætlun sína, Plan S. Verðlaunaðar gerðir fyrirtækisins, þar á meðal EV6 og EV9, hafa gert fyrirtækinu kleift að marka sér stöðu sem leiðandi afl í hönnun og framleiðslu rafbíla og stefna Kia er að styrkja stöðu sína sem leiðandi framleiðandi sjálfbærra samgöngulausna fyrir árið 2030 með því að setja á markað bíla á borð við EV3 og EV4. Um leið og Kia hefur fylgt framtíðarsýn sinni og unnið að því að uppfylla fjölbreyttar þarfir viðskiptavina sinna hefur endurskilgreining vörumerkisins einnig leitt til þess að reksturinn hefur þróast í átt að sjálfbærum stjórnunarkerfum sem hafa þarfir viðskiptavinarins í fyrirrúmi.

Meðan á þessari umbreytingu hefur staðið hefur Kia náð nokkrum mikilvægum sjálfbærnimarkmiðum á þeirri vegferð sinni að verða framleiðandi sjálfbærra samgöngulausna, þar á meðal innleiðingu 10 nauðsynlegra sjálfbærnilausna sem útfæra á í öllum nýjum línum Kia til að ná fram sjálfbærni í fjöldaframleiðslu.

PBV-áætlun Kia er enn einn þáttur í loftslagsmarkmiðum fyrirtækisins með því að gera PBV-bílum kleift að veita vetni og rafmagni sem framleitt er á ábyrgan hátt beint inn á innviði. Þetta dregur ekki aðeins úr umhverfisáhrifum hefðbundinna orkuvera og jarðefnaeldsneytis heldur tryggir einnig hagkvæmt og áreiðanlegt framboð rafmagns í borgum.