7. des. 2023

Kia EV9 útnefndur fjölskyldubíll ársins hjá Top Gear

Þetta gera þriðju verðlaunin í röð hjá Kia á árlegri verðlaunahátíð TopGear.com

Kia EV9

EV9 höfðaði til dómnefndar Top Gear með samblöndu fjölskylduvæns rýmis, mikillar drægni, tækni og nýjunga í hönnun og sjálfbærnilausnum.

Kia EV9 hefur verið útnefndur „fjölskyldubíll ársins“ á verðlaunahátíð TopGear.com árið 2023. Fjallað er um EV9 í nýjasta hefti Top Gear-tímaritsins frá BBC, þar sem sérstaklega er fjallað um bestu og eftirsóknarverðustu bíla heimsins. Einnig er hægt að horfa á kvikmyndina „Meet the Winners“, þar sem er að finna umfjöllun um EV9, á vefsvæði TopGear.com.

Ollie Kew, aðstoðarritstjóri Top Gear, sagði: „Við kunnum að meta afslappað yfirbragð EV9. Okkur líkar lágstemmt merkið sem og sú staðreynd að EV9 er ekki eins pirrandi í akstri og VW ID. Buzz, auk þess að komast mun lengra á einni hleðslu. Sætin vöktu líka hrifningu með nuddi í Bentayga-stíl, hita og loftræstingu, sem og mörg geymsluhólf, einföld niðurfelling sæta og sú staðreynd að bíllinn minnir um margt á höfuðið á Iron Man. Þetta er einn af áhugaverðari bílum ársins 2023, ekki vegna þess sem hann getur heldur fyrir hvað hann stendur. Það er ekki auðvelt að fella grænar lausnir inn í bíla í dýrari flokkum en það hefur svo sannarlega tekist í EV9.“

EV9 býður upp á allt að 563 km akstursdrægni (WLTP-prófun, blandaður akstur) og er búinn 800 V leifturhleðslutækni, sem býður upp á hleðslu úr 10 í 80 prósent á aðeins 24 mínútum á almennum hraðhleðslustöðvum. EV9 er kominn í sölu um alla Evrópu.

Kia EV9 er nýjasti meðlimurinn í rafbílalínu Kia og fylgir þar í fótspor Kia EV6 og Niro EV. Á degi rafbílsins 2023 hjá Kia kynnti fyrirtækið til sögunnar hugmyndabílana Concept EV3 og Concept EV4, auk EV5, sem nú er tilbúinn til framleiðslu, og undirstrikaði þannig metnaðarfulla hnattræna stefnu sína um að leiða og stuðla að hraðari þróun rafbíla.

Nánar um EV9