17. okt. 2023

Kia bætir við úrval rafbíla og stefnir á að flýta rafbílabyltingunni

Kia kynnir til sögunnar EV5 og tvo nýja hugmyndabíla á árlegum rafbíladegi Kia

Rafbílar Kia

Þrír nýir litlir til miðlungsstórir rafbílar voru kynntir til sögunnar á hinum árlega rafbíladegi Kia í Kóreu. Bílarnir undirstrika um leið metnaðurfulla stefnu Kia um að vera í fararbroddi í þróun og innleiðingu „rafbílabyltingarinnar“.

Á viðburðinum kynnti fyrirtækið framtíðarsýn sína um „rafbíla fyrir alla“ og áætlun sína um að stækka rafbílalínuna sína hratt og mikið. Kia kom sér á kortið sem rafbílaframleiðandi með EV6 og EV9 og bætir nú við rafbílalínu sína með þremur nýjum, litlum til meðalstórum rafbílum sem tryggja fólki enn meira val og betri aðgang að rafbílum.

Á kynningunni voru kynntir til sögunnar EV5, lítill SUV-rafbíll fyrir nútímafjölskylduna og tveir nýir hugmyndabílar. Kia EV3 hugmyndabílnum er ætlað að bjóða upp á kosti Kia EV9 í litlum SUV-bíl á meðan Kia EV4 hugmyndabíllinn er ný og fallega hönnuð útfærsla á sedan rafbíl. Viðburðurinn gekk ekki eingöngu út á að sýna nýju bílana. Þar var einnig fjallað um áætlun Kia um að auka þægindi og áreiðanleika fyrir viðskiptavini og rætt um sameiginlegar áskoranir, s.s. hleðsluinnviði.

Sjá magnað myndband af afhjúpun bílanna hér fyrir neðan.

„Kia leggur mikla áherslu á að bjóða upp á lausnir á vandamálum sem fólk er enn að setja fyrir sig þegar kemur að því að kaupa rafbíl. Við munum uppfylla væntingar viðskiptavina með fjölbreyttu úrvali rafbíla í mismunandi verðflokkum, auk þess sem við ætlum okkur einnig að bæta framboð hleðslustöðva,“ sagði forstjórinn Ho Sung Song.

„Kia tekur hlutverk sitt sem fyrirtæki á sviði sjálfbærra samgangna alvarlega og því er yfirfærsla fyrirtækisins yfir í rafbíla ekki valkostur heldur nauðsyn. Með þróun háþróaðrar rafbílatækni, afgerandi hönnun og aðgengilegri þjónustu og útfærslu þessara þátta í öllum rafbílum frá okkur vinnum við að endanlegu markmiði Kia um að sem flestir komi til með að njóta einstakrar þjónustu fyrirtækisins. Núna er rafmagnsvæðingin að komast á fullan skrið.“

Fyrirtækið hefur einnig kynnt til sögunnar áætlanir um að endurbæta ýmiss konar þjónustu sem tengjast upplifun viðskiptavina. Þetta felur m.a. í sér samþættingu mismunandi aðgerða í einu notendavænu snjallsímaforriti, nýrri efnislegri þjónustu og innleiðingu gervigreindar í bílana.

„Kia stefnir að því að bjóða upp á sjálfbærar samgöngulausnir og uppfylla þarfir viðskiptavina sinna með því að útiloka skynjaðar hindranir. Við viljum gera upplifun viðskiptavina okkar eins aðgengilega og ánægjulega og hægt er, allt frá því stafræna til hins efnislega og yfir í stjórnun bílsins. Þetta nær til samskipta fyrir kaup, við kaup og eftir kaup," sagði Charles Ryu, stjórnandi vörumerkis- og notendaupplifunardeildar.

„Við munum halda áfram að uppfylla þarfir viðskiptavina okkar í gegnum nýjan stafrænan vettvang og tækni til að geta sífellt leitað nýrra leiða til að taka næstu skref. Þetta gerum við þar sem grundvöllur Kia felst í loforði okkar um að bjóða upp á háþróaðri sjálfbærar samgöngulausnir sem koma til með að auðga líf fólks.“

Markmið fyrirtækisins er að ná árlegri sölu rafbíla upp í milljón eintök fyrir árið 2026 og upp í 1,6 milljónir eintaka fyrir árið 2030, allt á grunni þeirra vara og verkefna sem kynnt voru á rafbíladegi Kia

Kia EV5 er þriðji rafbíllinn í EV-línunni

Rafbílalína Kia: Lína í örum vexti sem kemur til með að uppfylla ólíkar þarfir viðskiptavina

Hver rafbílagerð gegnir lykilhlutverki í að hraða skiptum yfir í rafmagn með því að útvíkka framboð og aðgengileika rafbíla fyrir æ stærri hóp viðskiptavina.

Hver gerð er sérstaklega þróuð til að uppfylla sértækar og fjölbreyttar kröfur viðskiptavina en deila um leið sameiginlegum þáttum á borð við fyrsta flokks rafmagnsaflrásartækni, nýstárlegri „Opposites United“ hönnunarstefnunni og áætlun fyrirtækisins fyrir sjálfbæra liti, efni og áferð, skammstöfuð CMF. Það síðastnefnda gengur út að sýna sjálfbærni í verki, m.a. með því að nota tíu nauðsynlega sjálfbæra hluti í gerð hverrar gerðar, þ. á m. lífplast, lífræna málningu og endurunnið PET-plast eða fiskinet í teppi.

Kia EV5 SUV: Hannaður og framleiddur til að uppfylla þarfir og óskir nútímafjölskyldna

Kia EV5, þriðji rafbíllinn í EV-línunni, er byggður á undirvagni Kia, E-GMP. Hann er boðberi nýrra tíma í rafdrifnum samgöngum og einstakri SUV-hönnun. Lögun bílsins er byggð á einstakri hönnunarstefnu Kia, „Opposites United“, og hann sameinar einstaka fjölhæfni og framúrskarandi þægindi, háþróaðri tækni, kraftmiklum afköstum og nýjasta öryggisbúnaði í hárnákvæmri blöndu.

Útfærsla innanrýmisins í EV5 er byltingarkennt. Þar er innblástur sóttur í stærri EV9 SUV-bílinn sem nýlega kom á markað og niðurstaðan er rúmgott innanrými sem er nær því að vera setustofa á heimili en hefðbundið farþegarými bíls.

Innanrými EV5 er nær því að vera setustofa á heimili en hefðbundið farþegarými bíls

Rafmagnsaflrás og akstursupplifun

EV5 er byggður á E-GMP undirvagni Kia sem skilar traustri undirstöðu fyrir afköst bílsins og býður upp á framúrskarandi aksturseiginleika. EV5 verður framleiddur bæði í Kína og Kóreu og verða þrjár útfærslur í boði: hefðbundin útfærsla, útfærsla með aukinni drægni og útfærsla með aukinni drægni og aldrifi.

Áætlað er að hefðbundna útfærslan, sem búin er 64 kWh rafhlöðu og 160 kW mótor, muni draga 530 km á hleðslu samkvæmt CLTC-stöðlum (Combined Charging and Load Cycle). Útfærslan með aukinni drægni, sem verður búin 88 kWh rafhlöðu og sama 160 kW mótor, á að draga 720 km á hleðslu. Útfærslan með aukinni drægni og aldrifi verður með 88 kWh rafhlöðu og býður upp á 230 kW afl með 160 kW mótor að framan og 70 kW mótor að aftan. Kia áætlar að drægni aldrifsútfærslunnar verði 650 km samkvæmt CLTC-stöðlum. Þess utan mun bíllinn bjóða upp á hraðhleðslugetu þar sem hægt verður að hlaða rafhlöðuna úr 30% í 80% á 27 mínútum.

Verið er að þróa allar útfærslur EV5, þ. á m. hefðbundnu útfærsluna, útfærsluna með aukinni drægni og útfærsluna með aukinni drægni og aldrifi, fyrir Kóreu, þar sem horft er til mögulegra breytinga. Hefðbundna útfærslan verður með 58 kWh rafhlöðu og 160 kW mótor að framan. Langdræga útfærslan verður með 81 kWh rafhlöðu og sama 160 kW mótor að framan. Langdræga útfærslan með aldrifi verður með 70 kW aukamótor að aftan, sem eykur heildarafl bílsins upp í 225 kW. Akstursdrægni hverrar útfærslu fyrir sig verður sérsniðin að kröfum viðkomandi markaðar hverju sinni.

EV5-rafhlaðan var þróuð til að virka á skilvirkan hátt yfir árstíðirnar fjórar, jafnvel í mjög miklum hita og mjög miklum kulda. Háþróað varmadælukerfi, sem þegar er í notkun í EV6, hefur verið útfært í EV5 til að stýra hitastigi rafhlöðunnar og tryggja samfelld afköst óháð umhverfisaðstæðum.

Bíllinn er einnig búinn hemlakerfi sem endurheimtir hemlaorku og i-Pedal kerfi sem gerir ökumönnum kleift að hægja á og gefa inn með einu og sama fótstiginu, sem skilar sér í minna álagi og auknum akstursþægindum.

„Rafbílamarkaðurinn er að þróast úr því að þjóna minni hópi fyrstu kaupenda rafbíla yfir í að þjóna meirihluta allra kaupenda. Sem leiðandi aðili í skiptunum yfir í rafbíla höfum við á skömmum tíma aukið við rafbílalínuna okkar frá EV6 og EV9 yfir í fjölbreyttara úrval lítilla og miðlungsstórra rafbíla á borð við EV5. Vaxandi, samkeppnishæf rafbílalínan okkar mun auka vinsældir rafbíla og tryggja neytendum aukið val,“ sagði Spencer Cho, stjórnandi undirdeildar alþjóðlegrar viðskiptaáætlanagerðar.

„Kia EV5 er ekki eingöngu nýr bíll í hratt stækkandi rafbílalínu okkar heldur er hann einnig birtingarmynd þess hvernig við ætlum að hraða skiptunum yfir í rafbíla. Í okkar augum sameinar bíllinn framtíðarstefnu okkar í framleiðslu rafbíla og áherslu okkar á að hraða skiptum yfir í rafbíla á heimsvísu.“

EV5 verður einnig í boði í GT-útfærslu, sem býður upp á enn meiri afköst og sportlega akstursupplifun. Frekari upplýsingar um EV5 GT-útfærsluna verða birtar síðar.

EV5 kemur í þremur útfærslum ásamt sérstakri GT útfærslu

Upplýsinga- og afþreyingarkerfi og tengimöguleikar

Rúmgott, bjart og vel loftræst farþegarými EV5 er búið nýjustu tækni fyrir upplýsinga- og afþreyingarkerfi og tengigetu sem eykur skilvirkni og þægindi í akstri um leið og farþegar geta á öruggan hátt sinnt hugðarefnum sínum í hinum stafræna heimi.

Í innanrýminu er að finna ccNC-upplýsinga- og afþreyingarkerfið (connected car Navigation Cockpit), auk þess sem það styður þráðlausar uppfærslur. Það er búið víðskjá sem sameinar 12,3 tommu mælaskjá og 12,3 tommu upplýsinga- og afþreyingarkerfisskjá, auk 5 tommu skjás fyrir stjórnun miðstöðvarinnar. Þessi búnaður birtir ökumanninum ítarlegar upplýsingar og efni sem skilar sér í einfaldari og innihaldsríkari akstursupplifun.

Nýtt myndrænt notendaviðmótið flæðir á milli AVNT-skjáa fyrir hljóð og mynd, leiðsögn og fjarvirkni og stjórntölvan tryggir samfellu í birtingu upplýsinga. Einfaldar valmyndir tryggja þægilegri notkun rafbílaaðgerða og gera ökumanni kleift að vakta atriði á borð við drægni og hleðslu á fljótlegan máta. Hnökralaust flæði upplýsinga er bætt enn frekar með sjónlínuskjá, sem í boði er sem aukabúnaður.

Reynt var að hafa eins fáa hnappa í innanrýminu og hægt var. Undir AVNT-skjánum er að finna fjóra hnappa, gangsetningarhnapp, AVNT-hnapp og hita- og loftstýringu. Hér áður fyrr hefði þurft 17 hnappa samanlagt til að stjórna þessum kerfum.

Þriggja svæða hita- og loftstýring tryggir aðskildar stillingar fyrir ökumann, farþega í framsæti og farþega í aftursæti og eftirblástursbúnaður lágmarkar lykt frá loftkælingu til að tryggja þægilegt andrúmsloft fyrir öll þau sem í farþegarýminu sitja.

Viðskiptavinir geta haldið EV5 uppfærðum með uppfærslum á stafrænum eiginleikum og þjónustu bílsins, án þess að þurfa að fara með bílinn til söluaðila. Kia Connect Store býður upp á fjölbreytt úrval aukabúnaðar sem eykur afkastagetu bílsins og akstursánægju þeirra sem í honum sitja.

Öryggis- og þægindabúnaður

EV5 er búinn sjö loftpúðum. Öryggisbeltakerfi bílsins er fyrsta flokks, auk þess sem byggingarlag hans tryggir hámarksstyrk. Bíllinn er að sjálfsögðu með nýjustu útgáfu háþróaðra akstursaðstoðarkerfa Kia og fjölbreyttu úrvali akstursöryggisbúnaðar.

Bíllinn er með þjóðvegaakstursaðstoð 2, sem aðstoðar ökumenn við að halda viðeigandi fjarlægð frá öðrum ökutækjum, halda bílnum á miðri akrein, skipta um akrein og leiðrétta hliðlæga stöðu.

Með stafræna Kia 2 snjalllyklinum geta viðskiptavinir virkjað fjarstýrðu snjallbílastæðaaðstoðina. Þessi tækni gerir SUV-bílnum kleift að leggja sjálfkrafa án þess að ökumaðurinn komi þar nærri, sama hvort ökumaður er í bílnum eða utan hans. Snjallútakstur og fjarstýrður akstur áfram og aftur á bak létta einnig undir með ökumönnum þegar verið er að aka bílnum til í þröngum stæðum. Þessi búnaður býður upp á afslappaðri og ánægjulegri akstur og lagningu.

Fjarstýrða snjallbílastæðaaðstoðin notar úthljóðsnema til að greina hindranir og stýrir bílnum sjálfkrafa í bílastæðið með því að stjórna aflgjöfinni, hemlunum og gírkassanum. Kerfið hemlar einnig sjálfkrafa ef það greinir hlut sem fyrirstöðu á akstursleið bílsins. Bíllinn er einnig búinn árekstraröryggiskerfi með umferðarskynjara að aftan til að koma í veg fyrir árekstra þegar bakkað er.

Um þessar mundir er unnið að því að auka orkunýtingu EV5 með því að gera viðskiptavinum kleift að hlaða annan búnað með bílnum (V2L) eða flytja orku úr honum aftur inn á raforkukerfi (V2G). Í V2L er háspennurafhlaðan notuð til að hlaða ytri búnað. Kia mun leggja áherslu á að setja upp V2G-kerfi á svæðum þar sem viðeigandi innviðir eru til staðar þannig að hægt sé að veita rafmagni úr rafhlöðunni aftur inn á raforkukerfið.

Í EV5 er nýjasta útgáfa háþróaðra akstursaðstoðarkerfa Kia og fjölbreytt úrval akstursöryggisbúnaðar

Fjölbreyttir sætavalkostir

EV5 er í boði með úrvali sæta sem klædd eru með vistvænu áklæði úr endurunnu PET-plasti og lífrænu gervileðri. Þessi nýstárlega nálgun breytir rúmgóðu innanrými EV5 úr stað þar sem farþegar eyða tíma sínum í ferðum á milli staða í ótrúlega þægilegt, hagnýtt og upplífgandi umhverfi sem uppfyllir þarfir nútímafjölskyldunnar og tryggir ánægjulega upplifun í hvert skipti sem hún stígur inn í bílinn.

Frammi í bílnum tryggja sæti og stemningslýsing þægilegt rými fyrir þau sem þar sitja. Armpúðinn á miðstokknum er einnig búinn borði og geymslu sem eykur enn á notagildi bílsins.

Sæti sem hægt er að halla aftur eru hönnuð til að koma í veg fyrir óþægindi í baki með stiglausri hallastillingu. Slökunarsæti eru búin fjögurra stillinga nuddi með þremur styrkleikastigum þannig að fólk sem situr í þeim getur valið stillingu við hæfi á meðan hleðslu stendur og þannig ekið endurnært af stað á ný. Þægileg sæti bjóða upp á einstaka vellíðan með sex nuddhólfum, stuðningi við mjóbak með fjórum stefnustillingum, þriggja stiga miðstöð og loftræstingu og fótaskemli. Öryggissæti bílsins eru með þremur loftpúðum og höfuðpúðum með fjórum stefnustillingum og tryggja þeim sem í þeim sitja hámarksöryggi.

Þegar á áfangastað er komið geta fjölskyldur umbreytt aftari hluta innanrýmisins í svefnherbergi þar sem hægt er að leggja aftari sætaröðina flata niður í gólf. Hægt er að halda mat köldum eða hita hann upp í kæli / hitara í miðstokki í aftursæti. Einingin býður upp á upphitun matar og kælingu drykkja með hitastillingu frá 5 og upp í 55 gráður á Celsíus og 4 lítra rými. Hægt er að nota búnaðinn á ýmsa vegu, s.s. til að halda bakkelsi heitu eftir að það er keypt í bakaríi, til að hita te eða kaffi og til að geyma ískalda drykki og vatn í útilegum á sumrin.

Að sjálfsögðu útbjuggu hönnuðir innanrýmis EV5 einnig búnað sem gerir farþegum kleift að njóta matarins, hvort sem snætt er úti við eða í innanrýminu. Sá búnaður felst í einkar hagnýtri marglaga farangursgeymsluplötu sem hægt er að breyta í borð á augabragði.

Kia EV3 hugmyndabíllinn sækir innblástur í flaggskip Kia, EV9

Kia EV3 hugmyndabíllinn: Tækni, notagildi og hönnun EV9 flaggskipsins í fyrirferðarlitlum umbúðum

EV3 hugmyndabíllinn er birtingarmynd framtíðarsýnar Kia fyrir fyrirferðarlitla CUV-bíla þar sem notagildi og einskær akstursánægja fara hönd í hönd. Hann færir notendum tækni, notagildi og hönnun EV9, flaggskips Kia, í fyrirferðarminni og aðgengilegri bíl. Við fyrstu sýn kynnu þessir eiginleikar að virðast einhverjum ósamrýmanlegir en hönnun nýstárlegra og skapandi hönnunarlausna með því að steypa saman ólíkum hráefnum er aftur á móti kjarninn í hönnunarstefnu Kia, „Opposites United“. Hvað varðar EV3 hugmyndabílinn hafa hönnuðir Kia sótt sérstaklega mikinn innblástur í eina stoð hönnunarstefnunnar, „Joy for Reason“.

„Hægt er að líta á ánægju (joy) sem andstæðu rökvísinnar (reason). Annar þátturinn er jákvætt og tilfinningalega hlaðið viðbragð á meðan hitt er komið úr rökfestunni. Þegar þessir tveir þættir koma saman sameinast andstæðir eiginleikar þeirra í kraftmikilli og afgerandi hönnun,“ sagði Karim Habib, aðstoðarframkvæmdastjóri og stjórnandi alþjóðlegrar hönnunardeildar Kia.

„Í EV3 hugmyndabílnum eru áhrif „Joy for Reason“ greinileg í andstæðum eiginleikum kraftalegrar yfirbyggingarinnar og rennilegra útlínanna. Auk þess falla óhefðbundin form og áferðir saman til að skapa rökrétta en um leið tilfinningaþrungna hönnun.“

Einstakt notagildi og hugbreytandi andrúmsloft

Hönnun farþegarýmisins, með framrúðu sem liggur framarlega og langt aflíðandi þak, skapar einstakar útlínur. Kraftalegt yfirbragð ferkantaðra brettakantanna, sem skornir eru með ósamhverfum hornum, skila óvænt rökréttu en um leið áhrifamiklu yfirbragði. Andstæðan við þetta er rúnnuð framrúðan og sjálfstæð C-stoðin sem tengja glerfletina saman og gefa þakinu fljótandi yfirbragð.

Innanrými EV3 hugmyndabílsins blandar saman einstöku notagildi og hugbreytandi andrúmslofti og hönnun. Hönnunarstoðin „Joy for Reason“ spilar hér lykilhlutverk, eins og á ytra byrði bílsins, með því að sameina að því er virðist andstæð gildi til að framkalla afgerandi hönnun og skapa farþegarými sem er ánægjulegt að ferðast í og býður upp á nægt rými þegar á áfangastað er komið.

Eftirtektarverð og stílhreint innanrými EV3

Farþegarýmið býður einnig upp á umhverfi sem stuðlar að tilfinningalegri vellíðan. Mjúk stemningslýsing, eftirtektarverð og stílhrein lögun og fletir mælaborðsins með einkennandi línum skapa sjónræna upplifun sem myndar spennandi stemningu fyrir hverja ökuferð.

Við háþróaða hönnun sætanna og notkun vistvænna efna bætast lítil borð sem hægt er að snúa á langveginn, til hliðanna og á þverveginn, allt í anda stefnu fyrirtækisins um fjöldaframleidda sjálfbærni. Borðin og hreyfingar sætanna styðja við fjórar stillingar, einbeitingarstillingu, samskiptastillingu, hvíldarstillingu og geymslustillingu. Niðurfellanlegur aftursætisbekkurinn er ekki síður sveigjanlegur og hægt er að fella hann áreynslulaust fram á við til að hægt sé að koma fyrir fyrirferðamiklum farangri á borð við rafmagnshlaupahjól og reiðhjól.

Kia EV4 er ótvírætt tákn nýsköpunar

Kia EV4 hugmyndabíllinn: Ný viðmið fyrir sedan-rafbíla

Kia EV4 hugmyndabíllinn táknar einfaldleika stoðarinnar „Power to Progress“ í hönnunarstefnunni „Opposites United“. „Power to Progress“ leggur áherslu á þá þjálfun, þekkingu og sköpun sem varð til á nýlegu tímabili umbreytinga með hönnun að leiðarljósi hjá Kia. Þessi nálgun stuðlar að nýsköpun í vörum sem setja ekki aðeins ný viðmið fyrir hönnun einstakra bíla heldur endurskilgreina heilu sviðin í bílaiðnaðinum. Þetta á við um EV4 hugmyndabílinn.

Þar sem hann er fjögurra dyra gæti fólk haldið að hann flokkaðist sem sedan-bíll. Öflugar og áhrifamiklar línur hans gefa aftur á móti til kynna að hér sé ekki aðeins enn einn sedan-bíllinn á ferðinni, heldur alveg ný gerð af sedan-rafbíl sem er ótvírætt tákn nýsköpunar.

EV4 hugmyndabíllinn er innblásinn af „Power of Progress“ og felur í sér samruna traustra, einkennandi rúmfræðilegra lína og íburðarmikils yfirborðs með tæknilegu yfirbragði. Hann stendur fyrir ný gildi, nýja nálgun, nýja upplifun viðskiptavina og nýja gerð af bíl. Þættir eins og rennilegur, lágur framhlutinn, langar og líflegar útlínurnar og tæknileg vindskeiðin á þakinu eru allt eiginleikar sem minna á sport- og kappakstursbíla og undirstrika stöðu EV4 hugmyndabílsins sem algerlega nýrrar gerðar af sedan-rafbíl.

Afgerandi yfirbragð að framan eykur á áhrif framsækinna og tæknilegra útlína EV4 hugmyndabílsins. Staða bílsins er breið og tilkomumikil og aðalljósin liggja lárétt á ystu brún vélarhlífarinnar og framstuðarans, sem gerir hann að ótvíræðu tákni fyrir þá staðföstu stefnu vörumerkisins að leita nýrra leiða til að flýta fyrir rafbílabyltingunni.

„Mind Modes“ aðlagar lýsinguna og loftunarmynstrin í EV4

Innanrýmið er fallegt og rúmgott, með stílhreinni hönnun þar sem upplifun ökumanns er í forgangi án þess að trufla útsýnið.

Til að ná þessu fram hafa hönnuðir Kia sett í bílinn stjórnborð fyrir loftkælingu sem hægt er að fella snyrtilega inn í miðstokkinn þegar það er ekki í notkun. Auk þess hafa þeir sett upp fjölmörg örsmá loftunarop sem gefa möguleika á að breyta um mynstur, auk ýmissa annarra endurhannaðra atriða í innanrýminu.

Fallegt og rúmgott innanrými EV4

Umvefjandi umhverfið í farþegarýminu gerir ökumanninum kleift að tengjast bílnum á nýjan hátt án truflana. Nett mælaborð á tveimur stafrænum skjáum lagar sig að ökumanninum á fínlegan hátt og hjálpar honum að einbeita sér án truflunar að þeim verkefnum sem í vændum eru.

Í EV4 hugmyndabílnum er nýr eiginleiki sem kallast „Mind Modes“ og aðlagar lýsinguna og loftunarmynstrin. Í stillingunni „Perform“ fær ökumaðurinn allar upplýsingar sem hann þarf til að ná fram sínu besta og fá sem mest út úr hverjum degi. Stillingin „Serenity“ býður hins vegar upp á margvíslegt stafrænt myndefni til að búa til afslappaðra andrúmsloft fyrir næði og hvíld.

Úrval rafbíla Kia mun aukast hratt næstu ár

Ný upplifun af akstri á rafmagni hjá Kia: Viðskiptaferlið fært á næsta stig

Til að hraða rafbílabyltingunni og bjóða upp á fjölbreytt og yfirgripsmikið úrval fyrir alla viðskiptavini hyggst fyrirtækið nýta alla þætti viðskiptaferlisins og tryggja með því að skiptin yfir í rafbíl verði eins þægileg og ánægjuleg og hægt er. Þessi áætlun felur í sér að hver einasti þáttur samskipta við viðskiptavininn sé eins ákjósanlegur og kostur er, allt frá því fyrir kaup og yfir í upplifunina af að eiga bílinn.

Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2024 er áætlað að kynna til sögunnar Kia-forritið með það fyrir augum að bjóða viðskiptavinum upp á alhliða og vandkvæðalausa upplifun, allt frá því að kynna sér bíla og reynsluaka þeim yfir í að skrifa undir kaupsamning.

Í forritinu verður spjallmenni sem aðstoðar viðskiptavini með spurningar og veitir skjót svör. Það býður líka upp á afslátt af iðgjaldi fyrir tryggingar sem tengist tryggingavörum. Sá eiginleiki forritsins sem vekur mesta athygli er „E-routing“, sem notar núverandi stöðu rafhlöðu bílsins til að reikna út bestu leiðina með hliðsjón af staðsetningu hleðslustöðva. Á heimaskjá forritsins birtast upplýsingar sem tengjast staðsetningu, svo sem um nálæga veitingastaði, til að bæta upplifun notenda. Viðskiptavinir geta haft umsjón með hleðslutenginu og fylgst með hleðslustöðu í rauntíma á heimaskjánum með því að nota eiginleikann „Handle Layer“ í forritinu.

Kia stefnir einnig að því að bæta upplifun viðskiptavina utan netsins til að leggja áherslu á kosti rafbíla, þar sem meðal annars má nefna „Digital City Store“ og „EV Unplugged Ground“ í Kóreu og „City Store“ utan Kóreu. Í framtíðinni er áætlað að setja á fót sérhannaðar rafbílaverslanir í Bandaríkjunum, Evrópu, Kína og á Indlandi.

Með aðstoð sýndarveruleika og blandaðs veruleika er ætlunin að veita þrívíða upplifun sem hvetur viðskiptavini til að kynna sér vörurnar á dýpri hátt. Einnig verður lögð áhersla á að endurbæta þjónustu við viðskiptavini hjá alþjóðlegum sölufulltrúum á sviði rafbíla og kynna til sögunnar vörusérfræðinga sem sérhæfa sig í tilteknum svæðum. Þetta býður upp á einstaklingsbundna ráðgjöf og reynsluakstur sem eru sniðin að einstökum sérkennum hvers svæðis.

Kia ætlar að nýta gervigreind til að umbylta reynslunni um borð í bílum, þar á meðal í samstarfi við helstu aðila sem bjóða upp á gervigreindarlíkön í því skyni að kynna til sögunnar nýsköpun í þjónustu. Þetta gerir viðskiptavinum kleift að fá aðgang að fjölbreyttri þjónustu eins og að bóka tíma, fínstilla akstursleiðir fyrir rafbíla, skipuleggja ferðir, njóta afþreyingar og fá neyðarþjónustu með því einu að nota raddaðstoðina. Gervigreind verður fyrst nýtt í 2024-árgerðinni af EV3 og síðan samþætt EV4- og EV5-gerðunum, auk þess sem boðið verður upp á stöðugar endurbætur með þráðlausum uppfærslum.

EV-dagar framtíðarinnar

Framvegis mun Kia halda áfram að kynna nýja rafbíla, hugmyndabíla og byltingarkennda tækni á EV-deginum ár hvert og nýta viðburðinn sem vettvang fyrir vörumerkið til að kynna framsækna rafbílastefnu sína og áætlanir um framtíð samgangna.

Meira frá rafbíladegi Kia