16. okt. 2023

Háþróuð og sjálfbær efni í Kia EV3 og EV4 hugmyndabílum

Kia fjárfestir í lífframleiðslu með það að markmiði að rækta efni fyrir framtíðina

Kia EV4 concept car

Mýsli, kerfi sveppþráða í jarðvegi, getur mögulega komið í stað leðurs og annarra efna.

Kia hefur kynnt frekari upplýsingar um innanrými EV3 og EV4 hugmyndabílanna ásamt byltingarkenndum og umhverfisvænum efnum, sem og aðferðirnar sem notaðar eru til að búa þau til. Þetta mun gegna lykilhlutverki í þróun fyrirtækisins í átt að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði sjálfbærra samgöngulausna.

Þegar hönnunarteymið sem sér um liti, efni og frágang hannaði innanrými Kia EV3 hugmyndabílsins sótti það innblástur í frumefnið loft með því að nýta birtu og gagnsæi eins vel og kostur var í farþegarýminu. Í Kia EV4 hugmyndabílnum notaði hönnunarteymið einnig ýmiss konar ný og sjálfbær efni sem draga úr umhverfisáhrifum bílsins, veita aukið hönnunarfrelsi og bjóða upp á einstaka möguleika í litavali og frágangi.

Kia EV3 hugmyndabíllinn

Í EV3 hugmyndabílnum notaði hönnunarteymið náttúrulegar trefjar í stað kolefnistrefja­ til að hanna léttari og nettari sæti. Þessar trefjar eru sérstaklega sterkar og sjálfbærar og bjóða upp á fágað útlit sem einkennist af nútímafagurfræði, undirstrikaðri með róandi og náttúrulegum litatónum. Fyrir sætisáklæðin notaði hönnunarteymið þrívíddarprjónatækni. Þessi vinnsla skilar sér ekki aðeins í áhrifamiklu þrívíddarútliti með einstaklega mjúku yfirborði heldur skilar hún einnig saumi og samskeytum sem eru leiðandi í flokki sambærilegra bíla, auk þess sem úrgangurinn er enginn.

Innanrými Kia EV3

Sjálfbær efni innblásin af náttúrunni boða breytingar.

Efnið sem Kia valdi fyrir innra byrði miðstokksins í EV3 hugmyndabílnum var ekki framleitt, það var ræktað, eins og Marília Biill, yfirhönnuður lita, efna og frágangs hjá Kia, útskýrir. „Mýsli, sem er kerfi sveppþráða í jarðvegi, skapar einstaklega sterkt og mjög mjúkt yfirborð. Þróun ræktaðra efna, ferli sem kallað er lífframleiðsla, er eitt af stóru markmiðunum hjá Kia.

„Með því að nota mýsli getum við líkt eftir ferlum sem við sjáum í náttúrunni og notað þau til að hanna sjálfbærari lausnir. Hægt er að láta efnið vaxa í hvaða formi sem er með því að nota mót. Notkun á mýsli er enn á frumstigi og hluti af sjálfbærniáætlun Kia felur í sér vinnu með samstarfsaðilum til að flýta fyrir þróun efnisins. Með því að rækta okkar eigin efni getum við einn daginn einfaldað ferli, aðlagað form og, það sem mestu máli skiptir, tengst náttúrunni enn frekar.“

Kia EV4 hugmyndabíllinn

Hönnunarteymi EV4 hugmyndabílsins sótti innblástur í frumefnið jörð. Notkun náttúrulegra litarefna á 100 prósent endurunna bómull, unna úr möðrurót og valhnetuskurn, gerði hönnunarteyminu kleift að nýta sér nær endalausa möguleika í litasamsetningum og yfirbragði, allt í boði náttúrunnar.

Kia lagði áherslu á að skapa umhverfi sem einkenndist af einstökum gæðum í farþegarými EV4 hugmyndabílsins og lét því handvefa rendur úr tauefni sem notaðar eru á geymslurými og mælaborð bílsins. Þessi handverksnálgun skapar þrívíddaráhrif sem eru eins áhrifamikil og falleg og þrívíddarprjónaefnið sem notað er í sætisáklæði EV3 hugmyndabílsins.

Til að gera miðstokk EV4 hugmyndabílsins enn fallegri og hagnýtari nýttu hönnuðir lita, efna og frágangs hjá Kia hamptrefjar. „Hampur er jurt sem vex hratt og krefst lágmarksnýtingar auðlinda við ræktun,“ segir Marília Biill. „Hann er ekki einungis afar sjálfbær, heldur er einnig mjög auðvelt að móta hann, sem þýðir að hann er mjög fjölhæfur efniviður til að vinna með, auk þess sem hann ljær farþegarými EV-hugmyndabílsins einkar fallegan og djúpan lit.“

Innanrými Kia EV4

10 nauðsynlegar sjálfbærnilausnir sem skipta sköpum

Þótt mörg þeirra efna og aðferða sem notuð eru í EV3 og EV4 hugmyndabílana séu dæmi um lausnir sem Kia er að rannsaka með það að markmiði að nýta seinna í meiri mæli á fyrirtækið sér langa sögu um notkun sjálfbærra efna í vörurnar sínar, og má þar fyrst nefna notkun á lífplasti og lífrænum trefjum úr sykurreyr í Soul EV-bílnum árið 2014.

Samhliða markaðssetningu alrafmagnaða EV9 jeppans fyrr á þessu ári lagði Kia enn frekari áherslu á skuldbindingu sína til að draga úr áhrifum sínum á umhverfið við framleiðslu bíla með því að kynna til sögunnar 10 nauðsynlegar sjálfbærnilausnir fyrir allar nýjar Kia-vörulínur.

Meðal 10 nauðsynlegra sjálfbærnilausna Kia er lífplast. Lífplast er unnið úr lífmassa eins og jurtaolíu, maískjarna, sagi og sykurreyr og notað í bílaíhluti á borð við mælaborð, miðstokka, stoðir og áklæði. Kia hefur ákveðið að nota lífrænt gervileður sem unnið er úr plöntum og veitir fyrirtaks stuðning, bólstrun og endingu. Hægt er að búa til gólfefni í bílana úr 100 prósent endurunnu PET-efni og Kia býður einnig upp á að hluti þessara efna komi frá endurunnum fiskinetum.