10. feb. 2021

Askja kolefnisjafnar með endurheimt votlendis

Í upphafi þessa árs hlaut Askja umhverfisvottun samkvæmt ISO140001 alþjóðlega umhverfisstaðlinum.

Askja kolefnisjafnar með endurheimt votlendis

Á alþjóðlegum degi Votlendis, þann 2. febrúar, undirritaði Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Bílaumboðsins Öskju, samning við fulltrúa Votlendissjóðs um kolefnisjöfnun reksturs Öskju í gegnum sjóðinn. Í upphafi þessa árs hlaut Askja umhverfisvottun samkvæmt ISO140001 alþjóðlega umhverfisstaðlinum. Við undirbúning þeirrar vottunar var rekstur Öskju yfirfarinn í samstarfi við verkfræðistofuna Eflu til að ná utan um kolefnisspor fyrirtækisins. Heildarlosun starfseminnar var 343 Co2 tonn á árinu 2020 en öll losunin verður endurheimt í gegnum sjóðinn.

,,Þetta er jákvæður áfangi í okkar sögu. Við höfum unnið að þessu markmiði í um það bil tvö ár en með þessu skrefi er rekstur Öskju nú kolefnisjafnaður að fullu. Við völdum að vinna með Votlendissjóði því við höfum mikla trú á endurheimt, ekki bara sem aðgerð í kolefnisjöfnun heldur jafnframt til eflingar vistkerfa og umhverfis fisks og fugla á endurheimtu svæðunum," segir Jón Trausti. ,,Við sjáum hversu áríðandi það er þegar við horfum til þess að áratugur endurheimtar vistkerfa er hafinn undir forystu Sameinuðu þjóðanna. Við erum stolt af því að ganga í takt við þessar áherslur. Askja hefur verið leiðandi í rafbílasölu á Ísland og aukning í hlutdeild rafbíla í okkar vöruframboði heldur sífellt áfram að aukast með góðu framboði rafbíla frá okkar framleiðendum."

Votlendissjóður Íslands er sjálfseignarstofnun sem endurheimtir votlendi á Íslandi í samstarfi við samfélagslega ábyrga landeigendur, fyrirtæki og einstaklinga sem brenna fyrir baráttunni við hamfarahlýnun jarðar. Votlendissjóður hefur á síðustu tveimur árum endurheimt votlendi á tugum hektara víða um land. Með endurheimt stöðvast losun um þúsundir tonna koldíoxíðs árlega.

Nánar um starfsemi Votlendissjóðs á votlendi.is

Umhverfisstefna Öskju
merki Votlendissjóðs