Tökur á nýrri herferð fyrir Kia EV9 fóru fram hér á landi fyrr í sumar. True North sá um framleiðsluna fyrir þýsku auglýsingastofuna Innocean og Kia Europe.
„Það er mikill heiður fyrir okkur að Kia í Evrópu hafi valið Ísland sem aðal tökustað fyrir EV9 sem er fyrsti alrafmagnaði jeppinn frá Kia og mun brjóta blað í rafmögnuðum samgöngum. Íslendingar leggja mikið upp úr sjálfbærni og vilja rafvæða bílaflotann sinn sem allra fyrst. Þessi markmið eru í takt við stefnu Kia og erum við gífurlega stolt af því að aðal auglýsingarherferðin fyrir þennan tímamótabíl sé framleidd í íslenskri náttúru“ segir Kristmann Freyr Dagsson, sölustjóri Kia á Íslandi.
Undirbúningur hófst snemma á þessu ári, en tökurnar stóðu í 2 vikur, sitthvoru meginn við þjóðhátíðardag Íslendinga, 17. Júní.
Framkvæmdin skiptist upp í nokkra hluta til að ná utan um allt efnið sem framleiða þurfti; Sjónvarpsauglýsing, ljósmyndatökur og samfélagsmiðlaefni svo eitthvað sé nefnt. Auglýsingar fyrir sjónvarp voru unnar í samstarfi við TPF í Hamborg og MJZ í London og voru leikstýrðar af Fredrik Bond en hann er einn af reyndustu og eftirsóttustu auglýsingaleikstjórum heims.