28. júlí 2023

Risa auglýsingaherferð fyrir Kia EV9 tekin upp á Íslandi

Ísland varð fyrir valinu úr hópi evrópulanda m.a. vegna stórbrotinnar náttúru, hreinnar og grænni orku og háleitra markmiða í rafbílavæðingu.

Kia EV9 í tökum fyrir sjónvarpsauglýsingu

Tökur á nýrri herferð fyrir Kia EV9 fóru fram hér á landi fyrr í sumar. True North sá um framleiðsluna fyrir þýsku auglýsingastofuna Innocean og Kia Europe.

„Það er mikill heiður fyrir okkur að Kia í Evrópu hafi valið Ísland sem aðal tökustað fyrir EV9 sem er fyrsti alrafmagnaði jeppinn frá Kia og mun brjóta blað í rafmögnuðum samgöngum. Íslendingar leggja mikið upp úr sjálfbærni og vilja rafvæða bílaflotann sinn sem allra fyrst. Þessi markmið eru í takt við stefnu Kia og erum við gífurlega stolt af því að aðal auglýsingarherferðin fyrir þennan tímamótabíl sé framleidd í íslenskri náttúru“ segir Kristmann Freyr Dagsson, sölustjóri Kia á Íslandi.

Undirbúningur hófst snemma á þessu ári, en tökurnar stóðu í 2 vikur, sitthvoru meginn við þjóðhátíðardag Íslendinga, 17. Júní.

Framkvæmdin skiptist upp í nokkra hluta til að ná utan um allt efnið sem framleiða þurfti; Sjónvarpsauglýsing, ljósmyndatökur og samfélagsmiðlaefni svo eitthvað sé nefnt. Auglýsingar fyrir sjónvarp voru unnar í samstarfi við TPF í Hamborg og MJZ í London og voru leikstýrðar af Fredrik Bond en hann er einn af reyndustu og eftirsóttustu auglýsingaleikstjórum heims.

Kia EV9 í myndatöku
Auglýsingar og ljósmyndir af EV9 verða í stórbrotinni íslenskri náttúru

Um 35 manns á vegum Kia komu hingað til lands og unnu með 50 manna hópi á staðnum við herferðina, svo alls voru um 85 manns sem komu að framleiðslunni hér á landi. Íslenskir leikarar voru notaðir í myndirnar, sem og íslenskur leikstjóri og íslenskur tökumaður, auk almenns tökuliðs.

Jón Bjarni Guðmundsson og Andri Thor Birgisson frá True North sáu um framleiðslu hér á landi.

Eins og fram hefur komið er Kia EV9 fyrsti alrafmagnaði jeppinn frá Suður-Kóreska framleiðandanum og mun forsala hefjast innan tíðar. Bíllinn er væntanlegur til landsins síðar á þessu ári. Kia bindur mikla vonir við EV9 og fullyrðir að hér sé á ferðinni bíll sem mun leggja línurnar fyrir rafmagnaða jeppa framtíðarinnar.

Kia EV9 í myndatöku
Miklar væntingar eru gerðar til Kia EV9