19. okt. 2023

Ólafía Kristinsdóttir elskar EQA

Alltaf á ferð og flugi: Þannig er frumkvöðlinum og fyrrum atvinnukylfingnum Ólafíu Kristinsdóttur best lýst. Lýsingin á líka ágætlega við um bæði Ísland og EQA.

Ólafía Kristinsdóttir og EQA

Fyrrum atvinnukylfingurinn og frumkvöðullinn Ólafía Kristinsdóttir spjallaði við Mercedes-Benz me Magazine um lífið á Íslandi.

Viðtalið er hægt að lesa á ensku heimasíðu Mercedes-Benz me Magazine eða á íslensku með því að halda áfram hér.

Texti: Nicolo Fischer | Ljósmyndir: Marzena Skubatz

Frægasta íþróttafólk Íslands.

Það er sunnudagsmorgunn árið 1998. Út við sjóndeildarhring renna gráir tónar hafsins saman við himininn. Milli fjalls og fjöru blæs hressilega af ísköldum vindi. Mercedes-Benz 230 E ekur gegnum snævi þakið íslenskt landslagið. Maðurinn í framsætinu stingur Bítlakassettu í tækið og hækkar vel. Sex ára dóttir hans situr í aftursætinu og gæðir sér á íspinna. Aðeins nokkrum árum síðar á þessi stúlka eftir að verða ein þekktasta íþróttakona Íslands.

Ólafía Kristinsdóttir

Lítil skref inn á glæsta framabraut.

Ólafía Kristinsdóttir brosir þegar hún rifjar upp minningar um sunnudagsbíltúrana með föður hennar. Nú er hún þrítug og við höfum við mælt okkur mót á heimili hennar í litlu bæjarfélagi suður af Reykjavík. Geislar morgunsólarinnar rjúfa skýjabakkana og lýsa upp dimmgrænar hæðirnar og fjöllin allt í kring. Við setjumst upp í EQA 300 4MATIC og leggjum af stað út á golfvöll golfklúbbsins Keilis. Fáir staðir hafa haft jafn mótandi áhrif á líf aðalpersónunnar í frásögninni okkar. Ólafía byrjaði að spila golf þegar á æskuárunum, en það var til að drepa tímann, ekki af ástríðu. Hún valdi golfið ekki sjálf, heldur eldri bræður hennar: „Þegar þeir áttu að passa mig varð ég bara að gera það sem þá langaði að gera. Svo við fórum í golf.“

Ólafía hreppti fyrsta verðlaunapeninginn aðeins tíu ára gömul – og sú lífsreynsla hafði mikil áhrif á hana. „Mér fannst hrikalega töff að fá medalíu. Þess vegna hélt ég áfram að æfa. Það var gulrótin mín.“

„Golfið á sér svo margar víddir. Þú verður að vera í toppformi, bæði andlega og líkamlega, ná tökum á tækninni og bara líða vel í eigin skinni.“
Ólafía Kristinsdóttir

Golfvöllur á hraunbreiðunni.

Þegar komið er á golfvöllinn röltum við yfir græn engi og svargrátt hraun. Í þessu umhverfi lék hún sín fyrstu golfmót. 14 ára vann hún sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil. Ekki leið á löngu þar til alþjóðleg mót fylgdu í kjölfarið. Og árið 2014 gerðist hún atvinnukylfingur.

Vindurinn sem knýr öldurnar hátt upp á klettana við jaðar golfvallarins er óneitanlega hressandi. Hvítfyssandi brimið sendir úða yfir völlinn. Hvað er það sem við golfið sem heillar hana svona mikið? Ólafía horfir hugsi út á hafið um stund, en svarar svo: „Það eru svo margar víddir í golfi. Þú þarft að vera í toppformi bæði andlega og líkamlega, ná tökum á tækninni og bara líða vel í eigin skinni. Svo fléttast þetta allt saman og það er eitthvað svo töfrandi við að detta inn í þetta flæði.“

Stuttu síðar erum við aftur komin upp í EQA-bílinn og tökum stefnuna út á þjóðveg 1, sem oft er kallaður Hringvegurinn. Þessi vegur, sem er um 1.300 kílómetra langur, liggur hringinn í kringum eyjuna og er því ein helsta umferðaræð Íslands. Út um gluggann blasir við græn víðáttan sem teygir sig til allra átta. Hestarnir sem við sjáum tilsýndar virðast ekki kippa sér neitt upp við lágvært malið í 168 kW, 228 ha. rafmótornum.

EQA Iceland

Landslagið rennur nánast hljóðlaust fram hjá. Þetta útsýni þekkir Ólafía Kristinsdóttir vel frá æskuárunum, enda fóru foreldrar hennar í ótal langar bílferðir til að taka þátt í golfmótum. Og eins og foreldrar hennar gerðu ævinlega keyrir hún Mercedes. „Það er eitthvað við þessa stílhreinu en þó fyrirhafnarlausu fágun. Sumir bílar láta manni líða eins og maður sé að þykjast vera eitthvað. Og það vildum við hjónin alls ekki. Mér líður bara svo vel í Mercedes-Benz.“

Iceland

Eyjan rafmagnaða.

Ólíkt foreldrum sínum forðum ekur Ólafía þó ekki bíl með hefðbundna vél, heldur EQA-bíl. Þetta er ekki óvenjulegt, Ísland er með næstflestar nýskráningar rafbíla á heimsvísu, á eftir Noregi. Þó er aðeins áratugur síðan fjöldi rafbíla í landinu náði ekki einu sinni hundraðinu. Hvað skýrir þessar hröðu breytingar?

Svarið liggur í síbreytilegri náttúrunni. Hver sá sem skellir sér í bíltúr um þjóðvegi Íslands skynjar nærveru náttúruaflanna hvert sem ekið er; í stórkostlegum fossum, marrandi jökulsprungum, hvæsandi goshverum og kraumandi eldfjöllum. Náttúra Íslands er á stöðugri hreyfingu.

Ólafía Kristinsdóttir
„Ég var búin að byggja upp orðspor í golfheiminum, en þetta er eitthvað alveg nýtt.“
EQA in Iceland

Ísland býður kjöraðstæður fyrir rafknúnar samgöngur.

Landið stefnir að því að verða kolefnishlutlaust árið 2040. Það er raunhæft markmið, miðað við stöðuna í dag: Ísland framleiðir nú þegar næstum 100 prósent af raforkuþörf sinni með endurnýjanlegum orkugjöfum. Enda á Ísland gífurlegar auðlindir sem nýta má til grænnar orkuframleiðslu. Þar ber fyrst að nefna vatnsorku og jarðvarma, orkuauðlind sem nýtir varma frá jörðu.

Við notum MBUX-upplýsinga- og afþreyingarkerfið til að finna næstu hleðslustöð. Og viti menn, á skjánum sést að það eru nokkrar hraðhleðslustöðvar á næsta leiti. Við ákveðum að stoppa í Vík í Mýrdal, sem er lítill bær á Suðurlandsundirlendinu. Hraðhleðslustöðvar eru staðsettar við allan Hringveginn og það er aldrei lengra en 100 kílómetrar í næstu stöð. En þar sem bíllinn er með allt að 417 kílómetra drægni væri það ekkert stórmál þótt einhver þessara stöðva væri fullsetin þegar til kæmi.

Á meðan græna orkan streymir um kapalinn og inn í rafgeymi EQA-bílsins dregur Ólafía fram nokkrar golfkúlur og sýnir okkur. Á einni þeirra er áletrun. „Þetta er kúlan sem ég fór í fyrsta sinn holu í höggi með,“ segir hún með glampa í augunum. Hola í höggi er æðsti draumur hvers golfara: Ein sveifla og boltinn svífur beint í holuna. „Áhorfendurnir tryllast. Og þú stendur þarna, í þínum eigin heimi, enn með allan hugann við sveifluna. Svo hverfur kúlan og þá rennur það upp fyrir þér: Þetta var hola í höggi. Ég var búin að bíða lengi eftir þessu augnabliki." Annar hápunktur á ferli hennar var að taka þátt í Evrópumeistaramótinu 2018, þar sem hún keppti í blönduðu liði fyrir Ísland og vann til gullverðlauna. Hún varð einnig fyrsti íslenski kylfingurinn til að taka þátt í hinni rómuðu mótaröð Ladies Professional Golf Association Tour.

Iceland

Nýr kafli er að hefjast.

Það dylst engum að golfið á enn stóran hluta af hug og hjarta Ólafíu Kristinsdóttur. Þegar hún talar um íþróttina og segir sögur af ferlinum ljómar hún og verður hraðmæltari. Árið 2022 tók hún hins vegar afdrifaríka ákvörðun: Í tilfinningaþrungnu myndbandi á YouTube-rásinni sinni tilkynnti Ólafía að hún væri hætt í atvinnugolfi. Það leynir sér ekki að það tekur á hana að rifja þetta upp. Það tekur hana dálitla stund að ná stjórn á tilfinningunum. Þetta var ekki auðveld ákvörðun, eins og hún segir okkur sjálf. „Það þurfti hugrekki til að birta svona myndband, að tjá mig opinskátt um veikleika mína. En mér fannst það vera rétta leiðin. Eins og flestir vita auðvitað er líf atvinnuíþróttafólks ekki alltaf neinn leikur. Það þarf að færa miklar fórnir, og nú er ég búin að stofna fjölskyldu. Það var kominn tími til að byrja nýjan kafla í lífi mínu.“

Mercedes-Benz EQA in Iceland

Með eigið fyrirtæki.

Undir golfkúlunni í farþegasætinu leynist bók. Þetta er dagbók, en hana notar Ólafía til að punkta hjá sér hugrenningar og hugmyndir fyrir reksturinn. Snemma árs 2023, eftir aðeins tveggja mánaða þróunarvinnu, hleypti hún af stokkunum fyrirtæki sem annast útleigu á lúxushandtöskum. Ólafía hefur haft mikinn áhuga á tísku, allt frá sjö ára aldri. Hvað skyldi hana hafa dreymt um að verða á þeim árum? Nú, tískuhönnuður.

Og nú fær hún tækifæri til að finna fjölina sína í tískugeiranum því hún hefur stofnað sitt eigið fyrirtæki, Kristice: Kristinsdóttir frá Íslandi. Þetta er skapandi vettvangur þar sem hún fær að prófa sig áfram og læra. Hún sótti sér handleiðslu víða, las sér til um sprotafyrirtæki og nýtti sér YouTube-myndbönd við hönnun á vefsvæði fyrirtækisins. Þetta var tími sem einkenndist af metnaði og eldmóði.

„Ég fór á fætur klukkan sex og byrjaði að vinna. Þetta var svo spennandi.“ Þessi viðskiptahugmynd gaf henni einnig færi á að vinna að öðru viðfangsefni sem hún brennur fyrir: sjálfbærni. Að leigja út töskur er frábært dæmi um deilihagkerfið. Nú þarf ekki lengur að kaupa eitthvað sem þarf bara að nota af og til, heldur er hægt að leigja það og skila svo aftur eftir notkun. Þetta sparar auðlindir og verndar umhverfið.

Hvaða ráð getur hún gefið öðrum sem ákveða að breyta um stefnu? Þú þarft að fá frábæra hugmynd sem tryggir verkefni sem ekki klárast á viku. Og svo þarftu að treysta á þitt eigið innsæi. „Auðvitað er alltaf erfitt að byrja frá grunni. Ég þarf að byggja upp orðspor mitt í þessum bransa. „Ég var búin að byggja upp orðspor í golfheiminum, en þetta er alveg nýr starfsvettvangur.“

Allt á ferð og flugi.

Hálftíma síðar er EQA-bíllinn fullhlaðinn og ferðin heldur áfram í átt að Reykjavík. Um leið og við ökum út af Hringveginum liggur leiðin út á malarvegi og bundið slitlag. 4MATIC EQA er aldrifinn og fer létt með malarvegina, auk þess sem hann ekur af öryggi á snævi þöktum vegum og í hálku. Veðrið breytist á kílómetra fresti eða svo og skyndilega er bíllinn umkringdur þéttri þoku. Við þurfum samt engar áhyggjur að hafa, því eins og við segjum gjarnan á Íslandi: Ef veðrið er leiðinlegt skaltu bara bíða í fimm mínútur. Veðrið er jafn síkvikt og náttúran. Á Íslandi lærist manni fljótt að taka því sem að höndum ber. Og aðalsöguhetjan okkar tekur heils hugar undir það: „Við erum fljót að taka ákvarðanir, enda getur veðrið breyst frá einu augnabliki til annars. Þess vegna lifa svo margir Íslendingar eftir kjörorðinu „Þetta reddast.“

Rétt eins og náttúra Íslands virðist EQA-bíllinn stöðugt á hreyfingu: MBUX-kerfið greinir handahreyfingar sjálfkrafa að hluta og undirstrikar tiltekin svæði á skjánum, sem auðveldar alla notkun hans mikið. Sjálfvirka THERMOTRONIC-hita- og loftstýringin viðheldur stöðugu hitastigi í samræmi við veðurskilyrði. Ólafía Kristinsdóttir er þó sérstaklega hrifin af einu atriði: stemningslýsingunni, sem skapar notalega birtu að innan, ekki síst þegar grá þokan umvefur allt. „Ég setti þetta einu sinni í story á Instagram. Fólki fannst birtan ótrúlega flott og ég fékk fullt af athugasemdum um það lengi á eftir.“

Smám saman verður byggðin þéttari og göturnar malbikaðar. Við erum komin að útjaðri Reykjavíkur. Nú er líka einmitt kominn tími til að mamma sæki eins og hálfs árs guttann á leikskólann. Hún er auðvitað þegar búin að fara með hann á golfvöllinn og hann hrópar oft hástöfum „Golf, golf!“ Hún brosir þegar hún bætir við: „Kannski ég ætti að skrá hann í golfskólann fyrr en ég ætlaði.“

Það er ekki aðeins vegna sonarins sem þessi fyrrum atvinnukylfingur er komin aftur á völlinn. Nú hyggst hún, í samstarfi við fyrrum styrktaraðila sinn, bjóða upp á golfkennslu fyrir stúlkur, með það fyrir augum að vekja ástríðu fyrir íþróttinni hjá næstu kynslóð íþróttakvenna. Hún tekur einnig virkan þátt í starfi golfklúbbsins síns í Reykjavík og er í æfingahópum með öðrum kylfingum. Golfið er enn sem fyrr veigamikill hluti af lífi Ólafíu, jafnvel þótt það eigi ekki lengur hug hennar allan.

„Nú er næsta ævintýri að hefjast,“ voru lokaorð Ólafíu í myndbandinu þar sem hún tilkynnti að hún ætlaði að hætta sem atvinnukylfingur. Þau orð lýsa í hnotskurn viðhorfi hennar og hvernig hún tekst á við ný verkefni. Að vera opin fyrir ævintýrunum sem lífið býður upp á. Ævintýrum sem koma á óvart. Ævintýrum sem halda þér á stöðugri hreyfingu. Keyrir faðir hennar enn 230 E-benzinn? Nei, segir Ólafía. Pabbi hennar er búinn að skipta yfir í rafmagnið.

Mercedes-Benz EQA