Kílómetragjaldið verður áætlað og greitt með svipuðum hætti og gjöld fyrir þjónustu veitu- og orkufyrirtækja vegna sölu á heitu vatni og rafmagni.
Í frumvarpi sem samþykkt var á Alþingi í desember 2023 segir að stefnt er að innleiðingu nýs, einfaldara og sanngjarnara gjaldtökukerfis á næstu árum sem verði óháð orkugjafa.
Gert er ráð fyrir að greitt verði almennt kílómetragjald fyrir notkun vegainnviða í stað vörugjalda á bensín og olíugjald. Kílómetragjaldið verður greitt mánaðarlega út frá áætlun um fjölda ekinna kílómetra á tímabilinu.
Kolefnisgjald verður áfram greitt fyrir notkun dísilolíu og bensíns vegna þeirra loftslagsáhrifa sem notkun þeirra orkugjafa veldur.
Aðlögun fjármögnunar vegasamgangna að orkuskiptum fer fram í tveimur áföngum:
- Árið 2024: Innleiðing kílómetragjalds fyrir notkun rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla í flokki fólks- og sendibifreiða. Kílómetragjaldið verður 6 kr. fyrir rafmagns- og vetnisbíla og 2 kr. fyrir tengiltvinnbíla.
- Árið 2025: Innleiðing kílómetragjalds vegna notkunar allra ökutækja á vegakerfinu, þ.m.t. dísel- og bensínbíla. Samhliða er gert er ráð fyrir að eldri gjöld á borð við vörugjöld af eldsneyti muni eftir atvikum lækka eða falla niður, þó kolefnisgjald verði áfram greitt. Frumvarp um þetta verður lagt fram á næsta ári.
Nánari upplýsingar um þessa framtíðarsýn er að finna á upplýsingasíðunni www.vegirokkarallra.is.
Jákvæð þróun hefur veikt fjármögnun.
Á heimasíðu Stjórnarráðs segir einnig að vegna mikilla framfara í þróun sparneytnari bíla hafi það leitt til þess að nýrri bílar geta ekið töluvert fleiri kílómetra á hverjum lítra eldsneytis. Þessi þróun hefur á sama tíma veikt getu ríkissjóðs til að fjármagna viðhald og uppbyggingu vega með sífellt minni tekjum af ökutækjum og eldsneyti, þar sem tekjuöflunin byggist að stórum hluta á föstu gjaldi á hvern lítra eldsneytis.