10. júní 2021

N1 kaupir 20 öflugustu hraðhleðslustöðvar landsins

N1 hefur skrifað undir samning við Öskju um kaup á 20 hraðhleðslustöðvum en þær eru allt að 400 kw og eru því öflugustu hraðhleðslustöðvar landsins.

N1 kaupir 20 öflugustu hraðhleðslustöðvar landsins

Með kaupunum fjölgar hraðhleðslustöðvum N1 á lykilstaðsetningum um þjóðvegi landsins á næstu mánuðum.

„Við ætlum okkur að halda áfram á þeirri vegferð að vera leiðandi í orkuskiptum í samgöngum á Íslandi og halda áfram að veita viðskiptavinum okkur besta mögulegu þjónustu. Við höfum metnaðarfull markmið sem krefjast mikilla fjárfestinga en þéttum með þessu net hraðhleðslustöðva verulega, viðskiptavinum okkar til hagsbóta.”
Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1

Fljótlega verður hafist handa við að setja upp 400kW hraðhleðslustöðvar í Staðarskála, en þar verða allt að 6 stöðvar settar upp í sumar. Í kjölfarið bætast við tvær stöðvar til viðbótar við þær tvær sem nú þegar eru í Borgarnesi og að því loknu verður hafist handa við uppsetningu á Suðurlandi. Þannig blasir við að á næstunni bætast við öflugar hraðhleðslustöðvar á þjónustustöðum N1 í Vík og á Egilsstöðum, en nú þegar eru stöðvar í Lindum í Kópavogi, Mosfellsbæ, Borgarnesi, Blönduósi, Staðarskála, Hvolsvelli og á Akureyri.

„Það er okkur ánægja að N1 hafi valið að ganga til samstarfs við Öskju í þessu metnaðarfulla verkefni en hleðslustöðvarnar frá Innogy eru áreiðanlegar og hafa reynst mjög vel víðsvegar um heiminn. Við fögnum aukinni þjónustu við rafbílaeigendur um allt land og óskum N1 til hamingju með áfangann.”
Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju

Nýjar hraðhleðslustöðvar undirstrika vilja N1 til að halda áfram þeirri uppbyggingu stöðva sem gera ökumönnum kleift að hlaða bíla sína hringinn í kringum landið og minnka þannig kolefnisspor sín, enda fellur þessi samgöngumáti mjög vel að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir í loftslagsmálum.