Mikil sala er á tengiltvinnbílum (Plug-in Hybrid) þ.e. bílum með rafmótor og bensínvél á fyrstu sex mánuðum ársins. Alls hafa 1.675 tengiltvinnbílar hér á landi selst það sem af er ári en á fyrstu sjö mánuðum ársins 2020 voru þeir aðeins 967 talsins. Tengiltvinnbílar þykja gott fyrsta milliskref fyrir þá sem vilja skipta yfir í rafbíl og keyra mikið langkeyrslu inn á milli og finnst þægilegt að geta skipt yfir í bensín- eða díselvélina þegar rafmagnið minnkar.
Fyrstu kynslóðir tengiltvinnbíla komu á markað fyrir nokkrum árum. Algeng drægni þeirra var á bilinu 20 til 30 km á rafmagninu einu saman miðað við gömlu NEDC-mælinguna. Nú eru fullkomnari kynslóðir tengiltvinnbíla komnar á markað þar sem algeng drægni er á bilinu 50 til 100 km miðað við nýju WLTP-mælinguna. Sú mæling er mun raunhæfari en sú eldri enda framkvæmd við eðlileg skilyrði, raunhæfan akstur, hitastig, aksturslag ökumanns o.s.frv. Komið hefur í ljós að WLTP stenst mjög vel við íslenskar aðstæður, þar sem flestir aka að meðaltali 30 til 50 km á degi hverjum. Þess vegna er ekki óraunhæft að halda því fram að tengiltvinnbíll með 50 til 70 kílómetra drægni henti afar vel á Íslandi, þar sem hægt er að aka á rafmagninu einu flesta daga vikunnar og grípa til bensínvélarinnar á lengri ferðalögum.
Að sögn Jónasar Kára Eiríkssonar, forstöðumanns vörustýringar hjá bílaumboðinu Öskju, eru framleiðendur að auka drægni og tækni í hverri nýrri kynslóð sem kemur á göturnar.