23. okt. 2023

Mercedes-Benz fyrsti framleiðandi heims sem sviðsetur framanákeyrslu tveggja rafbíla

Magnað myndband frá árekstrarprófun Mercedes-Benz þar sem rafbílarnir EQA og EQS SUV óku hvor framan á annan

Mercedes-Benz rafbíll í árekstrarprófun

Niðurstöður úr árekstrarprófun: Rafbílar frá Mercedes-Benz ekki síður öruggir en aðrar gerðir frá framleiðandanum.

Gengið var lengra en lög mæla fyrir um þegar EQA og EQS SUV óku hvor framan á annan, báðir á 56 km hraða, með 50 prósenta skörun í sviðsetningu við raunverulegar aðstæður.

Verndun farþega staðfest: Farþegarými og háspennurafhlöður beggja bíla voru óskemmd eins og til stóð, hægt var að opna dyr og háspennukerfi slökktu sjálfkrafa á sér.

Með fyrsta opinbera árekstrarprófinu með tveimur rafbílum gengur Mercedes-Benz ekki aðeins lengra en lagaskilyrði kveða á um heldur fer líka fram úr kröfum matsfyrirtækja í greininni.

Euro NCAP kveður á um framanákeyrslupróf með 1400 kílóa vagni með sexstrendri framhlið úr áli til að líkja eftir framhlið annars bíls. Samkvæmt fyrirmælunum eiga prófunarbíllinn og vagninn að rekast á með skörun og á 50 km hraða. Mercedes-Benz notaði hins vegar tvo raunverulega bíla, EQA og EQS SUV, sem eru töluvert þyngri, eða 2,2 tonn annars vegar og hins vegar 3 tonn. Auk þess voru báðar gerðirnar á meiri hraða, eða 56 km hraða á klst. hvor, sem þýðir að áreksturinn var mun harðari en krafist er samkvæmt lögum. Mikil aflögun bílanna í árekstrinum gæti vakið ugg við fyrstu sýn. Fyrir verkfræðinga Mercedes-Benz er þetta hins vegar sönnun þess að bílarnir gátu tekið á sig höggorkuna við áreksturinn með því að aflagast. Þar af leiðandi voru öryggisrými farþega í báðum bílum óskemmd og enn var hægt að opna dyrnar. Í neyðartilvikum gæti þetta gert farþegum kleift að komast út úr bílnum af eigin rammleik eða björgunarfólki að komast til þeirra. Háspennukerfið í EQA og EQS SUV slökkti sjálfkrafa á sér við áreksturinn.

Árekstrarprófið í öryggismiðstöð Mercedes-Benz samstæðunnar í Sindelfingen ber vott um öryggishugsun fyrirtækisins: að framleiða bíla sem standast ekki aðeins fyrirfram skilgreind árekstrarpróf heldur líka raunveruleg slys. Í prófinu var hraðinn 56 km á klst. og skörun var 50 prósent, sem líkir eftir tegund slysa sem eru algeng á sveitavegum, til dæmis þegar reynt er að taka fram úr. Hraðinn í prófinu er ákvarðaður með tilliti til þess að við raunverulegar aðstæður myndu ökumenn reyna að hemla þegar stefnir í árekstur.

„Öryggi er hluti af arfleifð Mercedes-Benz og grunnskuldbinding gagnvart öllum vegfarendum. Fyrir okkur snýst vernd mannslífa ekki um drifkerfi. Nýlega árekstrarprófið með tveimur rafbílum er til marks um það. Það sannar að allir bílarnir okkar eru jafnöruggir, sama hvað tækni knýr þá. Við vinnum hörðum höndum að því að láta draum okkar um slysalausan akstur rætast, sem er enn metnaðarfyllra markmið en markmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og Sameinuðu þjóðanna um umferð án banaslysa. Við viljum ekki bara útrýma banaslysum fyrir árið 2050 og fækka banaslysum og alvarlegum meiðslum um helming fyrir 2030, miðað við árið 2020. Markmið okkar fyrir árið 2050 er að engir Mercedes-Benz-bílar lendi í slysum.“

Markus Schäfer, stjórnarmaður og tæknistjóri Mercedes-Benz Group AG.

Frá árekstrarprófinu í öryggismiðstöð Mercedes-Benz

Niðurstöður úr árekstrarbrúðum benda til hættu á meiðslum á farþegum.

Í EQA og EQS SUV voru tvær árekstrarbrúður í hvorum bílnum, alls þrjár konur og einn karl. Greining á allt að 150 mælipunktum á hverri brúðu leiddi í ljós minni háttar líkur á alvarlegum eða banvænum meiðslum. Þetta þýðir að skilgreind krumpusvæði og loftpúðakerfi í báðum bílum verja farþega afar vel í alvarlegum árekstrum eins og þessum. Allur öryggisbúnaður, svo sem loftpúðar og beltastrekkjarar með krafttakmörkurum, virkaði sem skyldi. Þannig staðfesti árekstrarprófið niðurstöðurnar sem verkfræðingarnir höfðu áður fengið úr fjölda tölvulíkana. Prófun með raunverulegum bílum er líka alltaf endanlegur samanburður við hermilíkönin. Árekstrarprófið sýnir líka skýrt fram á að samhæfni (þ.e. víxlverkun aflögunar mismunandi bíla í árekstri) er hluti af öryggiskröfunum fyrir Mercedes-Benz-bíla.

„Þetta árekstrarpróf, sem við greinum nú opinberlega frá í fyrsta sinn, undirstrikar fyrirætlan okkar um að framleiða öruggustu bíla í heimi. Kvenbrúðurnar og karlbrúðan voru allar innan lífaflfræðilegra marka í þessum afar harða árekstri. Þetta sýnir sérfræðiþekkingu okkar þegar kemur að öryggi rafbíla.“

Dr. Paul Dick, prófessor og yfirmaður öryggismála hjá Mercedes-Benz AG.

Kvenbrúður í ökumannssæti

Í árekstrarprófinu var líka lögð áhersla á brúðuna sem öryggissérfræðingarnir settu í ökumannssæti beggja bíla, Hybrid III-brúðuna fyrir 5. hundraðshlutamark kvenna, sem er kvenbrúðan sem nú er notuð í framanákeyrsluprófum í bílaiðnaðinum. Hún samsvarar konu sem er um 1,5 metrar á hæð og um 49 kíló að þyngd. Tölfræði sýnir að aðeins fimm prósent kvenna um allan heim eru lágvaxnari eða léttari. Mercedes-Benz hefur árum saman notast við framanákeyrslupróf með kvenbrúðum sem samsvara 5. hundraðshlutamarki í framsætinu til að hanna varnarkerfi sem virka fyrir sem flesta viðskiptavini. Einkunnir neytendaverndarsamtaka, sem og ýmsar lagalegar kröfur víða um heim, krefjast nú að prófað sé með kvenbrúðum sem samsvara 5. hundraðshlutamarki. Önnur kvenbrúða sem samsvarar 5. hundraðshlutamarki var farþegi í EQA-bílnum. Í farþegasæti EQS SUV var Hybrid III 50. hundraðshlutamarksbrúða sem semsvarar 78 kílóa þungum og meðalháum karli.

„Hjá Mercedes-Benz höfum við notað kvenbrúður í meira en 20 ár. Brúðurnar eru þó fyrst og fremst mælitæki. Við hönnun á mælibúnaðinum er kyn brúðanna miðað við raungögn um hæð og þyngd og líkamsbygging kvenbrúðunnar líkir eftir líkamsbyggingu kvenna.“

Dr. Hanna Paul, yfirmaður brúðutækni hjá Mercedes-Benz AG.

Árekstrarpróf Mercedes-Benz brúður
Tvær árekstrarbrúður í hvorum bílnum, alls þrjár konur og einn karl

Sérstakt háspennuöryggiskerfi.

Mercedes-Benz hefur þróað margþætt háspennuöryggiskerfi fyrir rafbílana sína. Í kerfinu eru átta grunnþættir til að tryggja öryggi rafhlöðunnar og allra annarra íhluta með yfir 60 volta spennu. Til dæmis má nefna aðskildar plús- og mínusraflagnir og sjálfvaktandi háspennukerfi sem slekkur sjálfkrafa á sér við alvarlegan árekstur. Í mörgum tilfellum ganga öryggisstaðlar fyrirtækisins lengra en lagalegar skyldur eða tilmæli neytendaverndarsamtaka kveða á um. Þetta kom enn einu sinni berlega í ljós í síðustu árekstrarprófun Mercedes-Benz.

Öryggismiðstöð Mercedes-Benz er ein sú nútímalegasta í heimi.

Frá árinu 2016 hefur Mercedes-Benz gert árekstrarpróf í nýrri öryggismiðstöð samstæðunnar í Sindelfingen. Miðstöðin er með þeim stærstu og nútímalegustu sinnar tegundar í heiminum. Þar eru þrjár afar sveigjanlegar árekstrarprófunarbrautir inn á opið svæði sem er yfir 8000 fermetrar (90 m x 90 m) að stærð. Afköstin eru ekki síður eftirtektarverð: Í Sindelfingen-miðstöðinni einni og sér gerir Mercedes-Benz allt að 900 árekstrarpróf og 1700 sleðapróf á hverju ári.

Stjörnumerkið góðkunna hefur rúmlega 60 ára reynslu af árekstrarprófum. Þessi reynsla, auk greininga frá slysarannsóknadeild samstæðunnar, er grundvöllur öryggishugsunar fyrirtækisins. Slysarannsóknadeildin var stofnuð árið 1969 til að greina slys þar sem nýir Mercedes Benz-bílar koma við sögu. Markmiðið er að skilja hvernig slys verða og hvaða öryggiskerfi hefðu getað komið í veg fyrir eða mildað þau.

Árekstrarpróf Mercedes-Benz rafbíla EQA og EQS SUV
EQA og EQS SUV samstuð á 56 km hraða með 50 prósenta skörun