14. apríl 2023

Kia stefnir á að selja 1,6 milljónir rafbíla fyrir árið 2030

Kia hefur uppfært viðskiptaáætlun sína til meðallangs og langs tíma með áherslu á rafvæðingu. Uppfært árlegt sölumarkmið Kia fyrir árið 2030 er 4,3 milljónir bíla, þar af 2,38 milljónir rafbíla.

Nýr-EV9-Kia-GT-line

„Árið 2021 fór Kia í gegnum umfangsmikla umbreytingu á nafni fyrirtækisins, lógói, vörum og hönnun, sem og stefnu fyrirtækisins. Þess vegna hefur virði vörumerkis okkar aukist verulega og hjálpað okkur að vinna fjölda verðlauna fyrir „bíl ársins“ á lykilmörkuðum,“ segir Ho Sung Song, forstjóri Kia. „Til þess að verða fyrirtæki sem einblínir á sjálfbærar samgöngulausnir þarf Kia að halda áfram að efla Kia-vörumerkið og festa framsækið og viðskiptavinamiðað rekstrarlíkan í sessi.“

Lykilatriði í endurnýjuðu sölumarkmiðunum var að Kia jók árlegt sölumarkmið fyrir rafbíla árið 2026 í 1 milljón bíla og fyrir 2030 í 1,6 milljónir bíla á ári, sem er 25% og 33% aukning frá markmiðunum sem tilkynnt voru ári fyrr.

Uppfærslan er byggð á trausti Kia á verðlaunabílum sínum. EV6 var valinn „bíll ársins í Evrópu árið 2022“ og „jeppi ársins í Norður-Ameríku árið 2023“. Kia hyggst nú framleiða 15 gerðir rafbíla fyrir árið 2027, þar á meðal flaggskipið EV9 sem kynnt var nýlega. Þetta er einni gerð meira en markmiðið um „14 gerðir fyrir 2027“ sem tilkynnt var um ári fyrr.

Fyrirtækið mun halda áfram að innleiða nýja tækni fyrir vörur sínar og tengimöguleika í öllum nýjum gerðum sem settar verða á markað eftir 2025, sem gerir viðskiptavinum kleift að uppfæra og hámarka afköst bílsins með þráðlausum uppfærslum. Þegar kemur að sjálfstýringartækni mun EV9 bjóða upp á HDP (Highway Drive Pilot), sem er skilyrt, sjálfstýrð aksturstækni á þriðja stigi sem gerir ökumanni kleift að stjórna ökutækinu „handfrjálst“ við tilteknar aðstæður. Árið 2026 hyggst Kia kynna HDP2-tækni sem mun styðja við „augnfrjálsan“ akstur undir vissum kringumstæðum.

Að auki hyggst fyrirtækið markaðssetja gagna- og hugbúnaðarlausnir til að kynna sérsniðnar vörur og þjónustu fyrir fjölbreyttar þarfir viðskiptavina og þróa samgöngulausnir í tengslum við Advanced Air Mobility (AAM) og þjarkatækni Hyundai Motor Group.

Ho-Sung-Song-forstjóri-Kia
Ho Sung Song, forstjóri Kia.