Kia hafði ekki fyrr þreytt frumraun sína í fimm metra flokki en hann hafði heillað 27 manna dómnefnd verðlaunanna fyrir bíl ársins í Þýskalandi 2024 upp úr skónum.
Þriggja sætisraða og alrafmagnaði jeppinn Kia EV9 var hlutskarpastur í „lúxusflokki“ keppninnar um bíl ársins í Þýskalandi 2024. Þetta á við um allar gerðir með grunnverð yfir 70.000 evrum. Kia EV9 bar sigurorð af níu öðrum gerðum sem voru tilnefndar.
Kia EV9 fetar þannig í fótspor hins margverðlaunaða EV6, sem var valinn „Bíll ársins í Evrópu“ árið 2022. Hægt hefur verið að panta Kia EV9 á Íslandi síðan í ágúst og fyrstu bílarnir ætlaðir íslenskum viðskiptavinum verða afhentir síðar á þessu ári.
„EV9 er nýtt flaggskip Kia og gegnir þannig lykilhlutverki í umskiptum merkisins yfir í að vera leiðandi framleiðandi rafbíla. Með einstaklega breytilegu og rúmgóðu innanrými, áberandi hönnun og leifturhleðslutækni setur bíllinn ný viðmið í flokki SUV-bíla,“ sagði Won-Jeong Jeong, forstjóri Kia Europe. „Við erum afar stolt af því að EV9 var útnefndur „lúxusbíll ársins í Þýskalandi“ áður en hann kom á markað, þar sem það er sterkt merki um að Kia-vörumerkið og rafvæðingarstefna þess sé viðurkennd og hljóti viðurkenningu þýskra bílasérfræðinga.“
Í keppninni um bíl ársins í Þýskalandi, sem haldin var í sjötta sinn nú í ár, gengust 48 nýjar gerðir undir prófanir og mat 27 bílablaðamanna. Keppnin skiptist í fimm flokka: „Smábílar“, „Premium“ og „Lúxus“ ásamt „Nýjum orkugjöfum“ og „Afköstum“. Næst velur dómnefndin allsherjarsigurvegara úr hópi þeirra fimm sem þóttu bestir í sínum flokki. Tilkynnt verður um úrslitin í októberbyrjun.