5. sept. 2023

Kia EV9 lúxusbíll ársins í Þýskalandi

Dómnefnd 27 bílablaðamanna valdi EV9 fram yfir níu aðrar gerðir

Kia EV9 að framan og hlið

Kia hafði ekki fyrr þreytt frumraun sína í fimm metra flokki en hann hafði heillað 27 manna dómnefnd verðlaunanna fyrir bíl ársins í Þýskalandi 2024 upp úr skónum.

Þriggja sætisraða og alrafmagnaði jeppinn Kia EV9 var hlutskarpastur í „lúxusflokki“ keppninnar um bíl ársins í Þýskalandi 2024. Þetta á við um allar gerðir með grunnverð yfir 70.000 evrum. Kia EV9 bar sigurorð af níu öðrum gerðum sem voru tilnefndar.

Kia EV9 fetar þannig í fótspor hins margverðlaunaða EV6, sem var valinn „Bíll ársins í Evrópu“ árið 2022. Hægt hefur verið að panta Kia EV9 á Íslandi síðan í ágúst og fyrstu bílarnir ætlaðir íslenskum viðskiptavinum verða afhentir síðar á þessu ári.

EV9 er nýtt flaggskip Kia og gegnir þannig lykilhlutverki í umskiptum merkisins yfir í að vera leiðandi framleiðandi rafbíla. Með einstaklega breytilegu og rúmgóðu innanrými, áberandi hönnun og leifturhleðslutækni setur bíllinn ný viðmið í flokki SUV-bíla,“ sagði Won-Jeong Jeong, forstjóri Kia Europe. „Við erum afar stolt af því að EV9 var útnefndur „lúxusbíll ársins í Þýskalandi“ áður en hann kom á markað, þar sem það er sterkt merki um að Kia-vörumerkið og rafvæðingarstefna þess sé viðurkennd og hljóti viðurkenningu þýskra bílasérfræðinga.“

Í keppninni um bíl ársins í Þýskalandi, sem haldin var í sjötta sinn nú í ár, gengust 48 nýjar gerðir undir prófanir og mat 27 bílablaðamanna. Keppnin skiptist í fimm flokka: „Smábílar“, „Premium“ og „Lúxus“ ásamt „Nýjum orkugjöfum“ og „Afköstum“. Næst velur dómnefndin allsherjarsigurvegara úr hópi þeirra fimm sem þóttu bestir í sínum flokki. Tilkynnt verður um úrslitin í októberbyrjun.

Langdrægur hátækni jeppi með hámarksfjölda sætisstillinga

EV9 er stærsta Kia-gerðin sem boðist hefur í Evrópu til þessa. Líkt og EV6 er EV9 með E-GMP undirvagn og býður auk þess upp á 800 volta leifturhleðslu sem tryggir hleðslu sem er með þeim öflugustu í flokki sambærilegra bíla. Við kjöraðstæður getur 99,8 kW rafhlaðan náð allt að 239 km akstursdrægni eftir 15 mínútna hleðslu.

Þessi alrafmagnaði jeppi fæst með afturhjóladrifi, knúnu 150 kW mótor með allt að 541 km akstursdrægni á rafmagni samkvæmt WLTP-prófun, eða aldrifi knúnu tveimur 141 kW rafmótorum með 497 km drægni á rafmagni (skv. WLTP). Aldrifsútfærslan er einnig fáanleg í GT-línunni, með hröðun upp í 100 km/klst. á 5,3 sekúndum og 200 km hámarkshraða.

EV9 býður einnig upp á mikil þægindi þegar hlé er gert á ferðinni. Til dæmis eru „afslöppunarsæti“ með rafrænni stillingu í fremstu sætaröð staðalbúnaður í GT-línunni. Hægt er að færa þau í þægilega hallandi stöðu á meðan lagt er í stæði eða í hleðslupásum.
EV9 er fáanlegur með sjö sætum eða sex sætum með tveimur stökum sætum í annarri sætaröðinni. Hægt er að velja á milli afslöppunarsæta, eins og eru í fremstu sætaröðinni, og snúningssæta sem geta snúist 90 gráður í átt að opnum dyrum eða 180 gráður í átt að farþegum í þriðju sætaröð.

Með afturhjóladrifnu grunngerðinni fylgir mikið úrval staðalbúnaðar. Þar á meðal eru tvílitar sætishlífar úr gervileðri, þriggja svæða sjálfvirk hita- og loftstýring, afturhleri með skynjurum, rafstýrð sætisbök í þriðju sætaröð, sjálfvirkir innfelldir hurðarhúnar, V2L-virkni (Vehicle-to-Load) til að nota rafhlöðuna sem orkugjafa, fingrafaraskanni og, í fyrsta sinn í Kia, stafrænn bíllykill („Digital Key 2.0“). Á meðal staðalbúnaðar er þjóðvegaakstursaðstoð 2 með akreinaaðstoð 2 (LFA 2), FCA-árekstraröryggiskerfi 2 (FCA 2) með beygjuaðstoð og umferðarskynjara að aftan, og snjallhraðastillir. Í GT-línunni eru auk þess sjálfstillanleg aðalljós með tveimur LED-ljósum, 360 gráðu blindsvæðisskjár (BVM), árekstraröryggiskerfi fyrir blindsvæði (BCA) og fjarstýrð snjallbílastæðaaðstoð 2 (RSPA 2), sem býðst sem valkvæð uppfærsla á grunnútfærslunni.

Fyrstu EV9 bílarnir verða afhentir á Íslandi síðar á árinu.

Skoða EV9