6. feb. 2024

Honda heimsfrumsýnir nýju 0-línuna með tveimur nýjum hugmyndabílum

Saloon og Space-Hub hugmyndabílarnir voru kynntir á á CES 2024

honda-saloon-hugmyndabill

Árið 2026 mun Honda setja á markað nýja rafbílalínu, Honda 0-línuna. Nýtt H-merki var einnig kynnt sem undirstrikar áherslu Honda á næstu kynslóð rafbíla.

  • Honda 0-línan er þróuð út frá nýrri nálgun, undir einkunnarorðunum „Thin, Light, and Wise“ (rennilegur, léttur og hugvitssamlegur), sem felur í sér fimm grunngildi:
  1. Listræn hönnun sem vekur hughrif.
  2. Sjálfvirkur akstur / háþróuð akstursaðstoð sem tryggir öryggi og hugarró.
  3. Rými fyrir fólk sem einkennist af interneti hlutanna og tengdri tækni.
  4. Ánægjulegur akstur með fullkominni tengingu við bílinn.
  5. Framúrskarandi nýting rafmagns.
nytt-h-merki-honda
Nýtt H-merki Honda verður eingöngu notað á næstu kynslóð rafbíla.

Afl draumanna.

Honda hefur sinnt viðskiptum undir alþjóðlegum slagorðum fyrirtækisins: The Power of Dreams – How we move you. Þetta slagorð, sem á íslensku gæti útlagst sem „Við nýtum afl draumanna til að knýja þig áfram“, ber með sér að Honda leggur áherslu á framleiðslu vöru og þjónustu sem gera fólki kleift að brjótast út úr takmörkunum tíma og staðsetningar, auka getu sína og fjölga tækifærunum. Með þessum vörum og þjónustu gerir Honda fólki kleift að raungera drauma sína og stuðla um leið að framþróun samfélagsins.

Enn fremur stefnir Honda að kolefnishlutleysi fyrir vörur sínar og rekstur fyrir árið 2050. Af þeim sökum stefnir fyrirtækið að rafmagnsvæðingu allra bíla sinna og er markmiðið að bjóða eingöngu upp á rafbíla og vetnisbíla árið 2040.

honda-0-merki
Honda 0-línan er væntanleg árið 2026

Honda 0-línan er ný rafbílalína sem endurspeglar þær miklu breytingar sem Honda er að ganga í gegnum með alþjóðlegum slagorðum sínum og rafvæðingarstefnu. Heiti línunnar kjarnar áherslu Honda á að takast á við þá áskorun að þróa nýja rafbílalínu með því að leita aftur til upphafs Honda sem bílaframleiðanda og skapa algerlega nýjan rafbíl frá núlli. Í þessari nýju rafbílalínu útfærir Honda enn frekar M/M-stefnu sína og akstursánægju, sem Honda leggur mikla áherslu á í framleiðslu sinni, auk þess að stuðla að enn meiri ánægju og frelsi í samgöngum.

Árið 2026 setur Honda fyrstu Honda 0-gerðina á markað á alþjóðavísu, fyrst í Norður-Ameríku, því næst í Japan, svo Asíu, Evrópu, Afríku, Mið-Austurlöndum og Suður-Ameríku.

honda-space-hub-hugmyndabill
Honda Space-Hub hugmyndabíllinn

1. Saga Honda: Uppruni og upphafspunktur Honda („núll“).

Honda býr til nýjan upphafspunkt fyrir næstu kynslóð Honda með því að leita aftur til uppruna fyrirtækisins, þar með talið í gegnum M/M-stefnuna, akstursánægju, ánægju og frelsi í samgöngum, sem Honda hefur alltaf og mun áfram leggja áherslu á.

2. Innleiðing alþjóðlegs slagorðs fyrirtækisins: Hreyft við fólki með gildi sem skapað er frá núlli.

Samkvæmt nýja alþjóðlega slagorðinu, „The Power of Dreams – How we move you“, lætur Honda draumana ávallt ráða för og með því að skapa ný gildi frá núlli í gegnum skapandi hugsun býður Honda auk þess upp á upplifanir sem verða nýr upphafspunktur fyrir viðskiptavini fyrirtækisins. Á þennan hátt hyggst Honda hreyfa við fólki.

3. Verkefni um að leggja af mörkum til samfélagsins: Stefnt á „núllið“.

Honda stefnir á að bílar fyrirtækisins hafi engin umhverfisáhrif. Það sama gildir um umsvif í tengslum við rekstur fyrirtækisins sem og þá stefnu að koma eigi í veg fyrir að mótorhjól og bílar frá Honda valdi banaslysum í umferðinni.

honda-saloon-hugmyndabill-ad-innan
Honda Saloon er ætlað að veita ökumanninum fullkomna stjórn við fjölbreyttar aðstæður með notkun rafræns stýris og enn frekari tækninýjungum.

„Thin, Light and Wise“ – Ný nálgun í þróun rafbíla og grunngildin fimm sem rafbílar frá Honda eru byggðir á.

Við þróun Honda 0-línunnar leitaði þróunarteymið aftur til upphafs Honda til að endurígrunda hvers konar rafbíla Honda vill framleiða þegar fram í sækir. Honda mun leggja sig fram um að skapa ný gildi fyrir rafbíla með því að brjótast út úr þeirri hugsun að bílar þurfi að vera „háir og þungir“ vegna aukinnar kröfu um afkastagetu rafhlaðna til að skila nægri drægni og kröfu um stóra yfirbyggingu og undirvagn til að koma slíkri afkastagetu fyrir. Honda lýsir þessari nýju nálgun við rafbíla sem „Thin, Light, and Wise“ (rennilegur, léttur og hugvitssamlegur).

Thin:

Útfærsla hönnunarmöguleika, s.s. með tilliti til útlits og lágrar stöðu bíls, um leið og leitast er eftir framúrskarandi straumlínulögun með „rennilegum“ rafbílsundirvagni og lágu gólfi.

Light:

Útfærsla sportlegs en sparneytins aksturs kollvarpar fyrirframgefnum skoðunum fólks á rafbílum í gegnum tæknilausnir Honda með því að leita aftur til upphafs Honda í bílaframleiðslu.

Wise:

Útfærsla stafrænna samgönguvara frá Honda byggðra á þekkingu sem Honda hefur aflað sér fram til þessa dags sem gerir bíla hugvitssamlegri með snjalltækni.

honda-space-hub-hugmyndabill-ad-innan
Honda Space-Hub býður upp á rúmgott farþegarými og framúrskarandi yfirsýn

Rafbílar Honda sem framleiddir verða á grunni þessarar þróunarstefnu og búnir sérhönnuðu rafbílakerfi munu einkennast af eftirfarandi fimm grunngildum:

1) Listræn hönnun sem vekur hughrif:

Hönnunarstefnan er „The Art of Resonance“ (list samhljómsins). Honda mun bjóða upp á sjálfbærar samgönguvörur, samkvæmt þema sem miðar að samhljómi við umhverfi, samfélag og notendur, og ætlað er að vekja hughrif hjá fólki sem sér þær og bjóða upp á fleiri möguleika í hinu hversdagslega amstri.

2) Sjálfvirkur akstur / háþróuð akstursaðstoð sem tryggir öryggi og hugarró:

Árið 2021 útfærði Honda 3. stigs sjálfvirkan akstur í þá glænýjum Legend með Honda SENSING Elite, en hann felur í sér háþróaða tækni sem uppfyllir skilyrði 3. stigs sjálfvirks aksturs (skilyrtur sjálfvirkur akstur innan afmarkaðra svæða). Nú stefnir Honda að því að gera fleiri viðskiptavinum kleift að nýta tækni fyrir sjálfvirkan akstur og því verður Honda 0-línan búin háþróaðri akstursaðstoð sem nýtir tæknilausnir Honda SENSING Elite.

Á seinni hluta yfirstandandi áratugar verða bílar í Honda 0-línunni búnir kerfi fyrir sjálfvirkan akstur og þá einnig í ódýrari gerðum rafbíla.

Verið er að þróa þetta kerfi fyrir sjálfvirkan akstur út frá öryggisstefnu Honda sem hefur fólk í fyrirrúmi. Það mun innihalda tækni fyrir ítarlegri gervigreind, skynjara, greiningu/ákvarðanatöku og eftirlit með ökumanni til að bjóða upp á mannlegra, náttúrulegra og nákvæmara áhættumat sem skilar sér í sjálfvirkri akstursvirkni sem fólk getur notað á öruggan og áhyggjulausan hátt. Slík háþróuð sjálfvirk aksturstækni mun fjölga aðstæðum þar sem hægt verður að nota sjálfvirkan akstur á hraðbrautum og bjóða upp á sumar handfrjálsar aðgerðir, sem eru sem stendur aðeins í boði á hraðbrautum, á venjulegum vegum.

honda-space-hub-hugmyndabill-aftursaeti
Honda Space-Hub farþegarýmið.

3) Nýtt gildi í rými fyrir fólk sem einkennist af interneti hlutanna og tengdri tækni:

Bílar Honda 0-línunnar verða búnir interneti hlutanna og tengdri tækni sem byggjast á bílastýrikerfi Honda og bjóða upp á skemmtilegan akstur, skemmtilega notkun og skemmtilega tengingu. Í gegnum gervigreind og umfangsmikil gögn mun bíllinn læra á notandann, svo sem tónlistarsmekk hans, sem og aksturslag, og birta tillögur eftir því. Þar að auki mun bíllinn birta upplýsingar um nágrennið og leiðsögn fyrir síðasta spölinn á áfangastaðinn sem notendur þurfa að ganga eftir að hafa yfirgefið bílinn. Bíllinn mun bjóða upp á ígildi þess að skilja tilfinningar notandans. Því meira sem fólk notar bílinn sinn því betri verður tenging þess við bílinn og um leið getur bíllinn boðið upp á „skemmtilegri tengingu“ við ýmsar aðstæður í hinu hversdagslega amstri fólks.

4) Ánægjulegur akstur með fullkominni tengingu við bílinn:

Bílar Honda 0-línunnar verða búnir rafvæðingar- og aksturstæknilausnum Honda með það að augnamiði að bjóða upp á skemmtilegan og hrífandi sportlegan akstur og góða tengingu á milli ökumanns og bíls, bæði andlega og líkamlega. Til viðbótar við þetta skapast mikill samhljómur á milli afls, lítillar loftmótstöðu og hönnunar þegar saman koma lág staða 0-línunnar og straumlínulögunartækni sem Honda hefur þróað í akstursíþróttum.

5) Framúrskarandi nýting rafmagns:

Þekking á skilvirkri nýtingu orku, sem Honda hefur aflað sér á sviði rafvæðingartækni í gegnum þróun hybrid-bíla og á öðrum sviðum, er nýtt til að ná framúrskarandi nýtingu rafmagns. Þar er sérstaklega hægt að benda á bíla Honda 0-línunnar sem búnir verða rafrænum öxlum*2 með framúrskarandi orkunýtni og orkuflutningi, léttri rafhlöðu og framúrskarandi straumlínulögun, þar sem markmiðið er góð drægni um leið og umfangi rafhlöðunnar er haldið í lágmarki.

Til að bregðast við áhyggjum af hleðslutíma og niðurbroti rafhlöðu, sem helst hafa verið nýttar sem afsakanir fyrir því að skipta ekki yfir í rafbíl, munu bílar í Honda 0-línunni enn fremur bjóða upp á hnökralausa hleðslu og áreiðanleg rafhlöðuafköst sem lágmarka niðurbrot eftir margra ára notkun. Hraðhleðsla úr 15% í 80% hleðslu verður stytt í um 10–15 mínútur í bílum 0-línunnar sem koma á markað á seinni hluta þessa áratugar. Í millitíðinni vinnur Honda hörðum höndum að því að takmarka niðurbrot rafhlaðna (drægni) við minna en 10% eftir 10 ára notkun, með því að útfæra tæknilausnir fyrir stjórnun rafhlöðukerfa sem byggðar eru á gríðarmiklu magni akstursgagna frá meira en einni milljón Honda-rafbíla.

*2 Kerfi sem samanstendur af mótor, áriðli og gírkassa og breytir raforku í drifkraft.

honda-saloon-hugmyndabill-ad-framan
Honda Saloon er lykilgerð Honda 0-línunnar.

Hugmyndabílar Honda 0-línunnar:

Honda Saloon.

Saloon er lykilgerð Honda 0-línunnar, birtingarmynd „Thin, Light, and Wise“-nálgunarinnar. Sérhannað rafbílabyggingarlagið eykur frelsi í hönnun og undirstrikar M/M-stefnuna nú þegar rafbílarnir ryðja sér til rúms. Lág staða og sportlegur stíll einkennir Saloon umfram aðra rafbíla við fyrstu sýn og því næst heillandi hönnun og innanrými sem er rúmmeira en fólk getur ímyndað sér miðað við ytra útlit. Enn fremur býður mælaborðið upp á fágað og samfellt notendaviðmót sem tryggir einfalda notkun. Saloon býður upp á skemmtilega og hrífandi akstursupplifun með góðri yfirsýn og einföldum stjórntækjum.

Saloon er ætlað að veita ökumanninum fullkomna stjórn við fjölbreyttar aðstæður með notkun rafræns stýris og enn frekari tækninýjungum í tengslum við hreyfingastjórnunarkerfið, þar með talið hæðarstillingu, sem komnar eru frá þróun Honda á þjarkatæknilausnum. Sem lykilgerð Honda 0-línunnar fangar Saloon hina fullkomnu „akstursgleði“ á tímum rafbílsins. Með notkun sjálfbærra efna í innanrými og á ytra byrði er enn fremur verið að þróa Saloon sem einstakan bíl í samhljómi við notendur og hið náttúrulega umhverfi.

Sjá kynningarmyndband hér fyrir neðan.

Honda Space-Hub.
Space-Hub var þróaður í takti við sameiginlega hönnunarstefnu Honda 0-línunnar, samkvæmt þemanu að auka getu fólks í hinu daglega amstri. Rúmgott farþegarými og framúrskarandi yfirsýn sem byggjast á þróunarnálguninni „Thin, Light, and Wise“ tryggja sveigjanlegt rými sem veitir notendum frelsi til athafna og skapar miðstöð sem tengir fólk hvert við annað og við samfélagið til að ná gegnumgangandi samhljómi.

Sjá kynningarmyndband hér fyrir neðan.

Ekki missa af nýjustu fréttum frá Honda á Íslandi!

Skrá mig á póstlista