11. des. 2023

Frábært fræðsluár að baki hjá Öskju

Aukinn kraftur í fræðslumálum í takt við þarfir starfsfólks

Mikil ánægja og merkjanlegur munur í greiningum.

Síðastliðið ár hefur Askja sett aukinn kraft í fræðslumál í takt við þarfir starfsfólks ásamt því að uppfylla kröfur bæði framleiðenda og félagsins. Fjölmörg námskeið framleiðenda eru rafræn, önnur augliti til auglits á netinu eða haldin erlendis. Einnig hefur Askja fengið kennara frá framleiðendum til Íslands til að kenna. Mikil ánægja hefur verið meðal starfsfólks með aukna áherslu á námskeið og fræðslu og er merkjanleganlegur munur í vinnustaðagreiningum sem lagðar eru fyrir mánaðarlega.

Sem dæmi um þjálfun sem boðið hefur verið upp á þá hafa tvisvar sinnum komið erlendir kennarar á vegum Mercedes-Benz og kennt hvernig vinna á með háspennu og rafmagn, staðlaðar bilanagreiningar og notkun greiningartækja. Þátttakendur þurftu að ljúka fjölmörgum rafrænum námskeiðum og prófum til þess að geta tekið þátt í fræðslunni.

Flest námskeið sem tengjast bifvélavirkjum Kia fara í gegnum Iðuna, en Davíð Már, tæknimaður Kia, hefur einnig miðlað efni og stendur til að sérsníða námskeið í Kia fræðslukerfinu til að mæta fræðsluþörfum enn betur.

Hjá Honda þurfa bifvélavirkjar að leysa ákveðið próf og niðurstaða þess ákvarðar hvort eða hvaða fræðslu þeir þurfa að taka. Bifvélavirkjar og tæknimenn Honda sóttu þrjú námskeið úti í Bretlandi í sumar en markmiðið var að fá menntun og vottanir sem Honda gerir kröfu um.

Allir þjónustu- og söluráðgjafar hjá Mercedes-Benz fara í gegnum fræðslu og þjálfun bæði með því að taka netnámskeið í fræðslukerfi Benz og með kennara á netinu. Í sumar var einnig öllu nýju starfsfólki í sölu og þjónustu boðið á námskeið hjá Önnu Steinsen í KVAN sem fjallaði um jákvætt viðhorf og hvernig á að veita framúrskarandi þjónustu.

Fyrir rúmu ári síðan varð til nýtt starf gestgjafa að fyrirmynd frá Mercedes-Benz og var María Ellingsen fengin til að þjálfa framkomu, samskipti og þjónustu.

Á árinu var einnig lögð áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir til að tryggja öryggi á vinnustaðnum. Liður í því var að bjóða upp á námskeið um einelti, áreitni og ofbeldi sem Þórkatla hjá Líf & Sál sá um.

Reglulega er boðið upp á námskeið í skyndihjálp. Öryggisnefnd Öskju fór einnig á námskeið á vegum Vinnueftirlitsins.

Nú í haust var svo aukin áhersla á að fræða starfsfólk um netöryggi og hópur fólks sem vinnur við sölu og í fjármáladeild sótti námskeið um peningaþvætti.

Á nokkurra ára fresti er ungu og efnilegu starfsfólki hjá Öskju boðið upp á fræðslu, Sprotana, með það að leiðarljósi að styðja fólk í að ná því besta fram úr sjálfu sér og samstarfsfólki. Markmiðið er einnig að auðvelda starfsfólki að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu. Töluverður fjöldi úr hópi þeirra sem hafa farið í gegnum slíka fræðslu hafa fengið viðameiri verkefni eða tekið við stjórnendastörfum hjá Öskju að námskeiði loknu.

Frá árinu 2019 til dagsins í dag hafa verið alls 20 bifvélavirkjanemar á námssamningi hjá Öskju og eru 15 þeirra enn í starfi. Fyrir nokkrum árum tóku verkstæðin í gegn þjálfunaráætlun fyrir nema. Árangurinn hefur skilað sér í betri einkunnum. Sem dæmi var nemi á Kia verkstæðinu sem fékk sérstaka viðurkenningu árið 2019 fyrir framúrskarandi árangur á sveinsprófi.