22. des. 2021

Fjórar bílasölur á nýhönnuðu bílasölusvæði

Bílaumboðið Askja - Notaðir bílar, Bílaland, Bílabankinn og Bílamiðstöðin eru óðum að koma sér fyrir á nýju og sameiginlegu bílasölusvæði sem Arkís hefur skipulagt fyrir lóðarhafa milli Hestháls 15 og Krókháls 7 í Reykjavík.

Fjórar bílasölur á nýhönnuðu bílasölusvæði

Nýja bílasölusvæðið, sem er rúmlega 23 þúsund fermetrar að stærð, var sérstaklega skipulagt fyrir fimm bílasölur og alls um 800 bíla, og er eitt það stærsta sem skipulagt hefur verið fyrir sölu fólks- og sendibíla hérlendis.

Mikið hefur verið lagt upp úr snyrtilegum frágangi, svo sem með malbikun lóðar, sérhannaðri lýsingu og fleiru, en lóðin blasir við vegfarendum frá gatnamótum Suðurlands- og Vesturlandsvegar. Fram undan er uppsetning hleðslustöðva fyrir rafbíla á lóðinni.

Umhverfisvænar lausnir við hönnun

Félagið K7 ehf. stendur að uppbyggingunni en að því standa eigendur bílaumboðanna BL og Öskju. Arkitektar Arkís sáum um hönnunina, þar sem áhersla var m.a. lögð á umhverfisvænar lausnir við hönnun húsnæðis og sölusvæðis. Má t.d. nefna að við hönnun útisvæðisins er frárennsli yfirborðsvatns beint um umhverfisvænar jarðvegsgrindur frá Ecoraster sem framleiddar eru úr endurunnu plasti og hleypa þær yfirborðsvatninu gegnum sig og ofan í jarðveginn. Er því ekki þörf á frárennslislögnum á planinu. Þá er öll lýsing á svæðinu með björtum orkusparandi LED-ljósum sem gerir kleift að sýna og skoða bíla við góð skilyrði.

Askja notaðir bílar Krókhálsi 7
Askja notaðir bílar

Góð staðsetning

Staðsetning svæðisins er sérlega góð með tilliti til aðgengis og staðsetningar fyrir viðskiptavini Öskju og BL. Innakstur til Öskju – notaðra bíla er frá Krókhálsi en þar skammt frá eru höfuðstöðvar Öskju við sömu götu. Þá er innkeyrsla til Bílalands frá Hesthálsi, þar sem Jaguar Land Rover er til húsa skammt frá. Hindrunarlaust aðgengi er fyrir viðskiptavini að bílasölunum hvort sem ekið er inn frá Hesthálsi eða Krókhálsi, en gert er ráð fyrir að næsta sumar gangi Reykjavíkurborg frá tengivegi milli Krókháls og Hestháls. Þangað til verður hægt að aka um nýja bílasölusvæðið til að komast á milli gatnanna.

„Þetta nýja bílasölusvæði verður bylting fyrir okkur og styður mjög við vaxandi starfsemi bílasölu í Hálsahverfi. Fyrir okkur í Öskju er þetta mjög jákvætt enda erum við með aðstöðu fyrir öll okkar merki í næsta nágrenni“.
Þorgeir Ragnar Pálsson, sölustjóri hjá Öskju
„Við hjá Bílalandi erum afar ánægð að flytja okkar sölustarfsemi á þetta nýja bílasölusvæði. Núna erum við mjög sýnileg og í alfaraleið þar sem Vesturlandsvegur og Suðurlandsvegur mætast“.
Sigurður Ófeigsson framkvæmdastjóri Bílalands
Vaxandi bílasölusvæði
Vaxandi bílasölusvæði