6. apríl 2021

Askja og Sleggjan í samstarf um þjónustu vörubifreiða og hópferðabíla

Bílaumboðið Askja og Sleggjan hafa gengið til samstarfs um þjónustu við vöru- og hópferðabíla frá Mercedes-Benz, Setra og Unimog

Sleggjan sem er alhliða þjónustuverkstæði fyrir vörubifreiðar og aftanívagna mun frá 1. maí taka yfir þjónustu, viðgerðir og viðhald á Mercedes-Benz vöru- og hópferðabílum og á sama tíma taka við atvinnubíla verkstæði Öskju sem mun því alfarið færast úr húsnæði Öskju til Sleggjunnar.

Starfsemi Sleggjunnar verður áfram í nýrri og vel búinni aðstöðu félagsins í Desjamýri í Mosfellsbæ og í Klettagörðum 4 í Reykjavík. Starfsmenn félagsins verða við þessa breytingu hátt í 30 talsins. Askja sem er umboðsaðili fyrir Mercedes-Benz, Kia og Honda mun áfram reka verkstæði sín fyrir fólks- og sendibíla á Krókhálsi, ásamt söludeildum bifreiða og varahluta.

"Sleggjan var stofnuð árið 1990 og byggir því á 30 ára grunni. Við fögnum mjög þessu samstarfi við Öskju um þjónustu við Mercedes-Benz vöru- og hópbifreiðar. Mercedes-Benz er meðal bestu framleiðenda heims og jákvæð og spennandi áskorun að taka við allri þjónustu sem snýr að þessum bílum."
Guðmundur Björnsson, framkvæmdastjóri og eigandi Sleggjunnar
"Við hjá Öskju fögnum því að koma að starfsemi Sleggjunnar. Félagið hefur verið vel rekið fjölskyldufyrirtæki og hefur gott orðspor. Með okkar innkomu í félagið verður til enn öflugra þjónustufyrirtæki sem mun taka næstu skref í að þjónusta og auka enn fjölbreytni og aðgengi eigenda Mercedes-Benz, Setra og Unimog, vöru- og hópferðabíla að góðri þjónustu."
Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju

"Undanfarin ár hefur Mercedes-Benz verið annar mest seldi vörubíllinn á Íslandi og í gegnum tíðina hafa Mercedes-Benz og Setra hópferðabílar verið langvinsælustu gerðirnar í hópferðaakstri með ferðamenn og innlenda hópa hér um landið. Það er því gríðarlega mikilvægt að til staðar sé gott þjónustukerfi sem sinnir þessum kröfuharða hópi atvinnumanna og það mun Sleggjan nú gera. Með samstarfinu bætum við þjónustuna enn frekar og verður viðskiptavinum sinnt af sérhæfðum starfsmönnum á einu af stærstu og best búnu verkstæðum landsins á tveimum starfsstöðvum í höfuðborginni sem þýðir enn meiri sveigjanleiki og hraði fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Jón Trausti ennfremur.