22. júlí 2025

Alþjóðlegt bílafyrirtæki kaupir Öskju

Inchcape sérhæfir sig í sölu og dreifingu á bifreiðum á heimsvísu

Askja Krókhálsi, sölu- og þjónustuaðili Mercedes-Benz, smart, Kia og Honda á Íslandi.

Vekra, móðurfélag Öskju, hefur undirritað samning um sölu á öllu hlutafé í Bílaumboðinu Öskju, Unu, Dekkjahöllinni og Landfara til alþjóðlega bílafyrirtækisins Inchcape. Gert er ráð fyrir að afhending félaganna fari fram í september. Jón Trausti Ólafsson verður áfram forstjóri og mun vinna með nýjum eigendum að áframhaldandi vexti og þróun félaganna.

„Þetta hefur verið einstök vegferð og hér verða kaflaskil þar sem við göngum til liðs við öflugt alþjóðlegt fyrirtæki sem hefur gott orðspor og vinnur á fjölbreyttum mörkuðum. Við göngum inn í verkefnið með það að markmiði að leggja okkar þekkingu og öflugu menningu inn í samstarfið en einnig til að þróa félögin enn frekar á íslenskum bílamarkaði. Ég er afar stoltur af þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað hjá Öskju og systurfélögum með einstökum stuðningi fráfarandi eigenda sem nær yfir tvo áratugi. Það er nákvæmlega sú uppbygging og umgjörð sem Inchcape finnst falla vel að sinni vegferð jafnframt sem þeim finnst Ísland vera spennandi markaður, ég er spenntur fyrir því að leiða félögin áfram með nýjum eiganda og starfsfólki Öskju.“
Jón Trausti Ólafsson, forstjóri Öskju
Jón Trausti Ólafsson, forstjóri Öskju

Mikil tækifæri og bjartsýn á framtíðina

Askja og móðurfélagið Vekra hafa vaxið hratt og markvisst á undanförnum árum og er nú orðin að öflugri samstæðu með yfir 290 starfsmenn. Vekra mun áfram eiga bílaleiguna Lotus og einnig rúmlega 16 þúsund fermetra fasteignasafn. Á árunum 2021 til 2024 námu heildartekjur rekstrarfélaga Vekru um 27,5 milljörðum króna á ári að meðaltali. Hjörleifur Jakobsson, stjórnarformaður Vekru segir mikil tækifæri í kaupunum.

„Þegar Inchcape hafði samband við okkur á síðasta ári þá sáum við strax að þetta væri áhugaverður kaupandi sem kæmi með reynslu og mik­il sam­bönd að borðinu til að þróa fyrirtækið frekar, auk þess sem það gæfi starfsmönnum ákveðin tækifæri að starfa í stóru alþjóðlegu fyrirtæki. Við kveðjum með góðum minningum og erum bjartsýn á framtíð þessara fyrirtækja.“
Hjörleifur Jakobsson, stjórnarformaður Vekru

Inchcape er alþjóðlegur, leiðandi og óháður dreifingar- og söluaðili bifreiða með yfir 150 ára sögu. Hjá fyrirtækinu starfa meira en 16.000 manns á 38 mörkuðum.

Sjá fréttatilkynningu