Rafjeppinn fer í framleiðslu í Graz í Austurríki næsta vor.
G-Class var töluvert breytt árið 2018, en hann var bæði lengdur og breikkaður. Þetta var meðal annars til að geta komið öllum nýmóðins tæknibúnaði í bílinn og einnig til að auka þægindi ökumanns og farþega. Hinn væntanlegi og rafmagnaði G-Class fær útlitsuppfærslu en hún snýst aðallega um að minnka loftmótstöðuna. Hönnunin heldur því sterkt í upprunalega „G“ og er því ekki mikill útlitsmunur á tilraunabílnum Concept EQG og hefðbundnum Mercedes-Benz G-Class.
Tilraunaútgáfa bílsins var frumsýnd árið 2021 undir nafninu Concept EQG en ekki er víst að EQG merking muni prýða rafútgáfuna. Bíllinn verður búinn fjórum rafmótorum og getur því snúist í hring á punktinum líkt og skriðdreki.
Bíllinn fer í framleiðslu næsta vor og eru fyrstu bílarnir væntanlegir til landsins sumarið 2024.
Nánari upplýsingar um tæknibúnað bílsins, svo sem drægni, hestöfl og verð verða tilkynnt síðar.