10 leiðir til orkuskipta
Þrátt fyrir að samgöngur með bifreiðum séu aðeins talin vera um 5-6% af heildarlosun Co2 á Íslandi þá skiptir sú losun miklu máli.
1) Hámarkskvóti bifreiða sem eru tengjanlegar og ganga fyrir rafmagni að hluta eða öllu leyti og njóta ívilnunar vegna virðisaukaskatts verði afnumin. Mikilvægt er að til staðar sé vissa um verð og framboð, neytendum í hag.
a. Rafbílar: kvóti sem hefur verið nýttur um 60% og er að hámarki 15.000 bifreiðar hverfi.
b. Tengiltvinnbílar: kvóti sem hefur verið nýttur yfir 90% og er að hámarki 15.000 bifreiðar hverfi.
2) Framlengja niðurfellingu virðisaukaskatts vegna tengiltvinnbíla út árið 2023 og rafbíla til ársins 2025.Áfram er miðað við að tengiltvinnbílar beri ekki virðisaukaskatt upp að 4.000.000. Eftir að þeirri upphæð er náð er greiddur virðisaukaskattur af þeirri upphæð sem er umfram þessi mörk.Niðurfellingin nýtist því best á ódýrari bílum og að fullu á bifreiðum sem kosta 4.000.000 kr. Til að njóta niðurfellingar má tengilbifreið að hámarki losa 45 grömm CO2 á km. skv. WLTP staðal. Í dag er viðmiðið 50 grömm á CO2 á km. skv. WLTP.Þessi viðmið hafa því lækkað ár frá ári samhliða aukinni drægi tengiltvinnbifreiða. Bein tengsl eru á milli meiri drægi og lægri útblástursgildum.
3) Veittur verði rafmagnaður stuðningur við leigubíla sem eru að fullu knúnir rafmagni. Miðað er við að styrkur til kaupa rafknúinna leigubíla sé 1.000.000 kr. á hvert leyfi og sé veittur hverjum leyfishafa einu sinni. Stuðningurinn er greiddur eftir að kaup hafi átt sér stað. Bifreiðin skal vera í eigu viðkomandi leyfishafa í að minnsta kosti 18 mánuði. Markmiðið er að rafvæða alla leigubíla fyrir árslok 2024. Samhliða þessu yrði felld úr gildi niðurfelling vörugjalda af bensín- og díselknúnum leigubifreiðum.
4) Veittur verði rafmagnaður stuðningur við sendibifreiðar. Þær bera í dag lág eða engin vörugjöld og virðisaukaskattskyldur rekstur greiðir ekki virðisaukaskatt. Þar af leiðandi þarf annars konar hvata til að notendur velji rafknúnar sendibifreiðar. Greiddur verði styrkur til fyrirtækja sem velja sér rafknúna sendibifreiðar og nemur styrkurinn 10% af kaupverði bifreiðarinnar. Kvóti við þennan styrk sé bundinn við 1.000 bifreiðar og er hámarksstyrkur hverrar bifreiðar 1.000.000 kr. Samhliða þessu eru lögð 5% viðbótarvörugjöld á alla bensín og díselknúnar sendibifreiðar til fjármögnunar á verkefninu. Vörugjöld á rafknúna sendibifreiðar eru í dag 0%.
5) Veittur verði rafmagnaður stuðningur við bifreiðar til fatlaðra. Til viðbótar við greiðslur Tryggingastofnunar verði greiddur aukalega styrkur að upphæð 1.000.000 kr. til bifreiðakaupa sé um að ræða rafknúna bifreið. Að öðru leyti er kerfið í kringum bifreiðar til fatlaðra óbreytt.
6) Stjórnvöld styðji við og beiti sér fyrir uppsetningu hraðhleðslustöðva á helstu ferðamannastöðum svo minni ferðaþjónustubifreiðar og leigubifreiðar geti að fullu verið rafvæddar.
Hleðsluaðstaða þarf að vera aðgengileg fyrir það magn bíla sem sækir svæðið hverju sinni. Aðstaðan er forsenda þess að ferðaþjónustubifreiðar sem eru í miklum akstri geti aukið hleðslu bifreiðarinnar á skömmum tíma. Dæmi um staði sem mikilvægt er að uppbygging hefjist sem fyrst á eru
a. Keflavíkurflugvöllur
b. Gullfoss / Geysir
c. Snæfellsnes
d. Bláa Lónið
e. Reykjavíkurflugvöllur
f. Jökulsárlón
g. Þingvellir
h. Mývatn
i. Goðafoss
7) Fjölgun hleðslustaura á almenningsbílastæðum. Fjármunir verði lagðir í fjölgun hleðslustaura á almenningsbílastæðum. T.d. við skóla, íþróttahús, sundlaugar og söfn. Ferðaþjónustu sé sérstaklega bent á styrki orkusjóðs til uppbyggingar hleðslustöðva við gististaði.
8) Ríkið kaupi einungis 100% rafbíla í opinberum innkaupum þar sem hægt er. Ríkið og opinberar stofnanir ættu að setja sér þau markmið að öll bifreiðakaup hins opinbera verði rafbílar þar sem því verður við komið fyrir lok árs 2023. Flotinn sé að fullu rafvæddur í lok árs 2024.
9) Skilagjald á bifreiðum sem skilað er inn til förgunar verði hækkað. Gjaldið er í dag 20.000 kr. sem eigendur bifreiða fá greiddar við skil á bifreiðum til förgunar hjá viðurkenndum aðilum. Gjaldið verði hækkað upp í 60.000 kr. Við förgun bifreiða eru málmar, gúmmí og önnur efni endurunninn og flutt úr landi. Allt að 90% af hráefnum bifreiðar er endurvinnanlegt og því um töluverðar útflutningstekjur að ræða samhliða.
10) Bílaleigur verði að hafa að lágmarki 25% af sínum kaupum í formi tengiltvinn- og eða rafbíla á árinu 2022. Jafnframt að hlutfallið verði lágmarki 40% árið 2023 til að njóta niðurfellingar vörugjalda bensín- og díselbíla. Hlutfall hreinna rafbíla verði alltaf þriðjungur af ofangreindu hlutfalli bílaleigukaupa.