11. mars 2021

Kolefnislaus bílafloti á heimsvísu fyrir árið 2039

Mark­mið Mercedes-Benz er að verða al­gjör­lega kol­efn­is­hlut­laus fyr­ir árið 2039 í framleiðslu og vöruframboði.

Hvítur bíll í akstri

„Við telj­um að bif­reiðar séu og muni áfram verða ferðamáti framtíðar­inn­ar og að þær séu ein af grund­vallar­for­send­um fyr­ir hreyf­an­leika ein­stak­linga og ein­stak­lings­frelsi – sér­stak­lega fyr­ir þá sem búa í dreif­býli, þar sem bif­reiðar eru tölu­vert betri kost­ur en al­menn­ings­sam­göng­ur og ann­ar ferðamáti.“

Þetta var meðal þess sem kom fram í er­indi Jörgs Heiner­manns, fram­kvæmda­stjóra og ábyrgðaraðila Retail of the fut­ure hjá Mercedes-Benz, á opn­um streym­is­fundi Þýsk-ís­lenska viðskiptaráðsins á miðviku­dag­inn. Heiner­mann fjallaði þar um þá metnaðarfullu veg­ferð sem bif­reiðafram­leiðand­inn hef­ur lagt af stað í gagn­vart sjálf­bærni.

Mark­mið Mercedes-Benz er að verða al­gjör­lega kol­efn­is­hlut­laus fyr­ir árið 2039 bæði hvað varðar fram­leiðsluþátt­inn og vöru­fram­boðið. Þá er stefn­an einnig sett á að meira en helm­ing­ur seldra bif­reiða verði ten­gilt­vinn­bíl­ar eða raf­bíl­ar árið 2030.

Tíu hrein­ir raf­bíl­ar fyr­ir lok næsta árs

„Sem fram­leiðandi erum við meðvituð um að við verðum að leita nýrra leiða til að út­vega slík­an ferðamáta sem tek­ur mið af hinum aug­ljósu vanda­mál­um sem mann­kynið glím­ir við. Við verðum að leita nýrra leiða og nýrra lausna þegar kem­ur að knún­ingsafli,“ bætti hann við.

Jón Trausti Ólafs­son, for­stjóri Öskju og stjórn­ar­maður í Þýsk-ís­lenska viðskiptaráðinu, sá um fund­ar­stjórn. Askja er með umboðið fyr­ir Mercedes-Benz-bíla á Íslandi og hef­ur Jón Trausti því góða inn­sýn í mark­mið fram­leiðand­ans.

„Það er mikið að ger­ast hjá Mercedes-Benz þessa dag­ana og mikið fram und­an. Þetta eru hrika­lega spenn­andi tím­ar,“ seg­ir hann í sam­tali við Morg­un­blaðið um áður­nefnd mark­mið um kol­efn­is­hlut­leysi. „Þá er einnig mjög áhuga­vert að sjá að strax í lok næsta árs verða þeir komn­ir með tíu hreina raf­bíla. Við erum nú þegar hjá Öskju með þrjá slíka í boði og í lok þessa árs verða þeir orðnir sjö tals­ins. Allt frá smærri bíl­um upp í stóra bíla,“ bæt­ir hann við.

Heiner­mann fór yfir þær áskor­an­ir og þær spurn­ing­ar sem fylgja orku­skipt­um bíla­flot­ans, þá sér­stak­lega hvað varðar skipt­in yfir í raf­magns­bíla. Sem dæmi um slík­ar áskor­an­ir nefndi hann drægni, líf­tíma raf­hlaða og kostnað. Hins veg­ar tók hann fram að nú­tíma­tækni á bak við vél­ar í bíl­um væri afrakst­ur um 130 ára þró­un­ar, það væri því eng­in ástæða til að ætla annað en að þess­ar áskor­an­ir yrðu leyst­ar á næstu árum.

Aðgang­ur að hleðslu­stöðvum er grunn­for­senda fyr­ir því að hægt sé að fjölga raf­bíl­um og í því sam­hengi nefndi Heiner­mann að mark­mið þýskra yf­ir­valda væri að koma upp einni millj­ón hleðslu­stöðva fyr­ir árið 2030. Á Íslandi væru aðstæður þó góðar þar sem aðgang­ur að ódýru raf­magni væri ekki vanda­mál og það væri þegar búið að setja upp mik­inn fjölda hleðslu­stöðva á hring­veg­in­um.

Ísland stend­ur framar­lega

Aðspurður seg­ir Jón Trausti að Íslend­ing­ar standi flest­um þjóðum fram­ar hvað þetta varðar.

„Ég held að Ísland sé komið mun lengra en aðrar þjóðir. Við erum kannski ekki ennþá búin að ná Norðmönn­um en við erum á hraðri leið að elta þá uppi. Horf­andi á upp­bygg­ingu eins og hjá Orku nátt­úr­unn­ar, N1 og fleir­um þá er Ísland á góðri leið með að verða mjög vel búið innviðum fyr­ir rekst­ur raf­bíla,“ seg­ir hann og bæt­ir við:

„Raf­bíl­ar og ekki síður ten­gilt­vinn­bíl­ar henta ís­lensk­um aðstæðum afar vel. Önnur og þriðja kyn­slóð ten­gilt­vinn­bíla er með mikla drægni á raf­magni, allt að 100 kíló­metra, sem hent­ar þeim full­kom­lega sem búa hér og vilja ferðast um landið. Þú get­ur keyrt nán­ast all­an þinn dag­lega akst­ur á raf­magni.“

Að lok­um seg­ist Jón Trausti þess full­viss að ekki sé langt í raf­bíla sem henta fyr­ir ís­lensk fjöll og fjalla­ferðir.