29. ágúst 2023

55 tonn af plasti endurheimt úr sjónum

Alþjóðlegur samstarfsaðili Kia, The Ocean Cleanup, setur nýtt met í að hreinsa plast úr heimshöfunum

Kia og the Ocean Cleanup

Plastið verður endurunnið og hluti þess notaður í væntanlegar Kia-gerðir samkvæmt langtímasamkomulagi.

Í nýjum gerðum rafbíla frá Kia verður notast við plast úr 55 tonnum sem nýlega voru endurheimt úr Kyrrahafi. Þetta metmagn plasts sem alþjóðlegur samstarfsaðili Kia, The Ocean Cleanup, hefur endurheimt markar næsta áfanga í sjö ára alþjóðlegu samstarfi sem samið var um í apríl 2022 og er hluti af umbreytingu Kia í leiðandi aðila á sviði sjálfbærra samgöngulausna.

The Ocean Cleanup, alþjóðlega verkefnið sem miðar að því að losa höfin við plast, landaði metafla af plasti í borginni Viktoríu á Vancouver-eyju í Kanada. The Ocean Cleanup notaðist við System 002-tækni sína til að safna þessu plasti saman í langri ferð um stóra ruslaflekkinn í Kyrrahafi. Stóri ruslaflekkurinn er heimsins mesta samansafn af fljótandi rusli og er talinn vera um 1,6 milljón ferkílómetrar að flatarmáli – sem jafngildir þrefaldri stærð Frakklands.

Plastinu sem kom á land var safnað á 1,6 milljón ferkílómetra svæði í Kyrrahafi, á „stóra ruslaflekkinum“ svokallaða.

Endurvinnsla á plastinu sem er fangað hefst fljótlega og Kia hyggst nota hluta efnisins í væntanlegar gerðir. Þessi stefna samræmist markmiði Kia um sjálfbærar samgöngulausnir sem hafa marktæk jákvæð áhrif á sjálfbærni í víðara samhengi.

Kia hefur sett sér markmið um að auka endurnýtingu á plasti um meira en 20% fyrir árið 2030 og að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2045

Kia hefur nú þegar innleitt á fjórða tug sjálfbærra lausna á ýmsum vörusviðum, þar á meðal í áklæðum og mottum úr endurunnu PET-efni, lífrænu leðurlíki og lakki sem er án BTX*. Í 7 sæta, rafknúna EV9-flaggskipinu er endurnýttur úrgangur, þar á meðal fiskinet sem hafa verið endurheimt úr hafinu, til dæmis notaður í gólfteppi bílsins. Íhlutir EV9 sem framleiddir eru úr endurunnu plasti og lífrænu, vistvænu efni vega um 34 kíló.

The Ocean Cleanup hafði ekki fyrr landað metafla sínum en tilkynnt var um innleiðingu nýrrar System 03-tækni í verkefninu. System 03 er nærri þrisvar sinnum umfangsmeira en System 002 og getur fangað mun meira plast með minni kostnaði á hvert kíló allt árið um kring. Það felur líka í sér aukna umhverfiseftirlits- og öryggistækni svo sem nýja öryggistækni til verndar sjávardýrum. Þessi auknu umsvif marka næsta áfanga í markmiði The Ocean Cleanup um að hreinsa upp 90% af fljótandi plasti í sjónum fyrir árið 2040.

Átakið er í samræmi við markmið Kia um að veita sjálfbærar samgöngulausnir

Sem fyrr er Kia staðráðið í að stuðla að sjálfbærri plánetu og velferð komandi kynslóða. Hluti af þessari stefnu er áframhaldandi og vaxandi stuðningur Kia við The Ocean Cleanup. Lögð verður áhersla á þetta með því að merkja öll vinnuföt starfsfólks í System 03-verkefninu með merki og einkennislitum Kia.

Charles Ryu, aðstoðarframkvæmdastjóri og yfirmaður vörumerkja og viðskiptavinaþjónustu hjá Kia Corp, hafði þetta að segja: „Þetta metmagn plasts sem The Ocean Cleanup kom með til endurvinnslu er áþreifanleg sönnun á því hvernig hægt er að nota tæknina til að finna sjálfbærar lausnir. Samstarf Kia við The Ocean Cleanup sýnir einbeittan vilja vörumerkisins til þess að láta gott af sér leiða. Verkefni eins og þetta ríma fullkomlega við umskipti Kia yfir í þjónustufyrirtæki á sviði sjálfbærra samgöngulausna, sem og „Plan S“-áætlun fyrirtækisins þar sem við sýnum ábyrgð í verki með því að koma jafnt til móts við þarfir viðskiptavina og umhverfisins.“

Nisha Bakker, samstarfsstjóri The Ocean Cleanup, sagði: „Með þessum metafla bindum við enda á System 002-skeiðið hjá The Ocean Cleanup um leið og við hleypum System 03 af stokkunum. Við fetum okkur áfram skref fyrir skref og við erum sannfærð um að System 03 sé kerfi af þeirri stærðargráðu sem þarf til að auka umfang hreinsunarstarfsins á sem hagkvæmastan hátt. Í framhaldi af System 03 er svo ætlunin að nota fjölda samverkandi kerfa sem hafa burði til að fjarlægja 50 prósent ruslaflekksins á fimm ára fresti. Við getum þó ekki gert þetta ein okkar liðs. Öflugir samstarfsaðilar, og þar má sérstaklega nefna alþjóðlega samstarfsaðilann Kia, eru nauðsynlegir til þess að The Ocean Cleanup geti gert sameiginlegt markmið okkar um plastlaus úthöf að veruleika.“

Ocean Cleanup system 02 á Kyrrahafinu
System 002 kerfi hjá The Ocean Cleanup

Um The Ocean Cleanup

The Ocean Cleanup er alþjóðlegt, óhagnaðardrifið verkefni um þróun tækni til að hreinsa plast úr heimshöfunum. Ætlunin er að ná þessu markmiði með tvennum hætti: með því að koma í veg fyrir að plast berist með ám og fljótum á haf út og með því að hreinsa það sem þegar hefur safnast saman í sjónum. Í því skyni hefur The Ocean Cleanup þróað og beitt stórtækum kerfum til að safna saman plasti svo hægt sé að fjarlægja það reglulega. Rekjanleikalíkan DNV er notað til að fylgjast með og rekja plastið svo hægt sé að votta uppruna þess þegar það er endurunnið fyrir nýjar vörur. The Ocean Cleanup hefur þróað lausnir undir heitinu Interceptor™ til að stöðva og sækja plast úr ám áður en það berst til sjávar. Boyan Slat stofnaði The Ocean Cleanup árið 2013 og nú starfar um 140 manna þverfaglegt teymi á vegum verkefnisins. Stofnunin er með höfuðstöðvar í Rotterdam í Hollandi og opnaði fyrstu svæðisskrifstofu sína í Kúala Lúmpúr í Malasíu árið 2023. Hægt er að fá frekari upplýsingar með því að fara á theoceancleanup.com og fylgjast með @theoceancleanup á samfélagsmiðlum.

Ocean Cleanup system 02
55 tonn af plasti úr sjónum afhend í Viktoríu á Vancouver-eyju í Kanada