Nýr Kia Sportage með umhverfismildari dísilvél búin mild hybrid búnaði

Nýr Kia Sportage með umhverfismildari dísilvél búin mild hybrid búnaði

12. september 2018

Bílaumboðið Askja frumsýnir nýja og uppfærða útfærslu af hinum vinsæla sportjeppa Kia Sportage nk. laugardag kl. 12-16.

Sportage verður fyrsti Kia bíllinn sem boðinn er með nýjum og tæknivæddum mild-hybrid búnaði sem minnkar CO2 losun um 4% samkvæmt WLTP mælingum og sérstakur SCR búnaður sér auk þess um að draga úr NOx útblæstri frá vélinni.

Kia Sportage býður upp á nýja 2 lítra dísilvél sem skilar 185 hestöflum. Þessi nýja vél er með mild hybrid búnaði og er hreinasta dísilvél sem Kia hefur framleitt. Í boði er einnig ný 1,6 lítra dísilvél sem skilar 136 hestöflum og leysir af hólmi eldri 1,7 lítra vélina. Báðar þessar nýju dísilvélar eru skilvirkari og aflmeiri en áður, auk þess að vera eyðslugrennri og umhverfismildari. Með nýjum Sportage verður Kia annar tveggja bílaframleiðenda í heiminum til að bjóða mild-hybrid, hybrid, plug-in hybrid og hreina rafbíla.

Nýr Sportage kemur með nokkuð breyttu útliti. Ný hönnun er á framgrillinu eða tígrisnefinu, sem er ættareinkenni Kia, og kemur mjög vel út. Nýr framstuðari og ný LED ljós gera mikið fyrir framsvipinn á bílnum. Hönnunin á nýjum Sportage var samstarfsverkefni hönnunardeilda Kia í Frankfurt, Kaliforníu og Namyang í Suður-Kóreu.

Bíllinn er 40 mm lengri og með 15 lítra meira skottpláss en áður. Sportage verður í boði með bæði fjórhjóladrifi og framhjóladrifi og í báðum tilvikum með 7 þrepa DCT sjálfskiptingu. Bíllinn er mjög tæknivæddur og í vali eru 7" og 8" snertiskjáir í innanrýminu sem er vel hannað með hágæða efnisvali og góðri uppsetningu á stjórnrofum. Hugsað er vel um ökumann og farþega í rúmgóðu innanrýni bílsins og sætin eru sérlega þægileg í nýja bílnum. Kia hefur unnið sérstaklega að því að bæta aksturseiginleika bílsins enn frekar.

Auk þess er nýr Sportage búinn öllum nýjustu öryggis- og akstursstoðkerfum frá Kia. Nýr Kia Sportage er að sjálfsögðu með 7 ára ábyrgð eins og allir nýir Kia bílar sem er lengsta ábyrgð sem bílaframleiðandi býður upp á í heiminum.

,,Við erum afar ánægð að geta frumsýnt þessa nýju útfærslu af okkar vinsælasta sportjeppa. Sportage hefur átt geysimiklum vinsældum að fagna hér á landi undanfarin ár. Gengi Kia hefur verið ótrúlega gott hér á landi sem og um allan heim undanfarin ár og hér heima hefur Kia verið í öðru sæti yfir söluhæstu bíla á Íslandi síðustu misseri. Það er mikill styrkur fyrir Kia að geta nú boðið upp á bíla með öllum þessum valkostum þ.e. mild-hybrid, hybrid, plug-in hybrid og hreina rafbíla. Það eykur breiddina til muna og gefur viðskitpavinum kost á að velja nákvæmlega hvernig Kia bíl þeir vilja og með hvaða orkugjafa," segir Þorgeir Pálsson, sölustjóri Kia hjá Öskju

Þessi síða notar fótspor (e. cookies) vegna nauðsynlegrar virkni hennar og til að safna tölfræðigögnum með þeim tilgangi að gera síðuna betri.