María Ögn verður framkvæmdastjóri Kia Gullhringsins

María Ögn verður framkvæmdastjóri Kia Gullhringsins

Á myndinni eru Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, María Ögn Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KIA Gullhringsins, og Einar Bárðarson, eigandi keppninnar.

María Ögn Guðmundsdóttir hjólreiðakona hefur tekið að sér framkvæmdastjórn KIA Gullhringsins, sem er eitt stærsta hjólreiðamót landsins og fram fer á Laugarvatni 9. júlí nk. María Ögn er sigursælasta hjólreiðakona landsins frá upphafi en ætlar nú að breyta til hjá sér í hjólreiðaíþróttinni, minnka við sig sem keppandi og færa sig yfir í það að stýra og þjálfa. Þetta er þó ekki fyrsta hjólreiðamótið eða viðburðurinn sem hún stýrir en hún var framkvæmdastjóri WOW Cyclothon árið 2014. Þá hefur María Ögn staðið fyrir ýmsum hjólreiðaviðburðum í gegnum tíðina, verið fararstjóri í hjólreiðaferðum erlendis og kennt fjölmörgum að nota hjólið á réttan hátt og ná markmiðum sínum.

,,Það er mikil spenningur í mér, þetta verður skemmtileg áskorun. Við ætlum að gera gott mót ennþá betra,“ sagði María á fundi með kostendum og eigendum keppninnar í dag. ,,Mótið hefur verið til fyrirmyndar í gegnum árin, vaxið hratt en þó hefur verið hugað vel að öllu í þessum vexti. Öryggismál hafa verið sérstakt metnaðarmál og okkur keppendum þótt vænt um það í gegnum tíðina. Í ár verður bara bætt við ef eitthvað er í þann hluta keppninnar. Svo er er líka gaman að sjá hvað Laugvetningar og íbúar í uppsveitum Árnessýslu eru áhugasamir og vinsamlegir í garð keppninar,” bætir hún við.

Bílaumboðið Askja hefur verið bakhjarl keppninnar síðastliðin þrjú ár og það samstarf hefur verið framlengt. ,,Það er mikill fengur fyrir keppnina að fá Maríu Ögn inn sem framkvæmdastjóra. Hún hefur verið keppandi frá fyrstu keppni og unnið kvennaflokkinn frá upphafi. Það verður gaman að sjá hana takast á við þetta hlutverk og við væntum þess að hún sigri þetta verkefni eins og önnur sem hún tekur sér fyrir hendur, núna sem stjórnandi keppninnar en ekki keppandi,” sagði Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju.

María Ögn hefur í gegnum árin verið iðin við að miðla af reynslu sinni, auka vægi hjólreiðaíþróttarinnar til almennings og hefur boðið upp á regluleg námskeið undir merkjum Hjólaþjálfunnar. María mun halda áfram að bjóða upp á ýmiss konar námskeið og þjálfun, samsíða því að stýra KIA Gullhringnum. Skráning í hjólreiðamótið hefst um helgina.

Þessi síða notar fótspor (e. cookies) vegna nauðsynlegrar virkni hennar og til að safna tölfræðigögnum með þeim tilgangi að gera síðuna betri.