GLC er nýr sportjeppi frá Mercedes-Benz

GLC er nýr sportjeppi frá Mercedes-Benz

Mercedes Benz GLC sportjeppinn er nýjasti bíllinn úr smiðju þýska lúxusbílaframleiðandans. GLC mun leysa af hólmi GLK sportjeppann sem verið hefur vinsæll hér á landi sem víða annars staðar. Hinn nýi GLC er enn eitt dæmið um vel heppnaðan sportjeppa frá Mercedes-Benz hvað varðar hönnun, tækni og aksturseiginleika miðað við forverann.

GLC er fallega hannaður og með mun straumlínulagaðri og sportlegri línur en GLK. Framendinn er svipsterkur með áberandi framljósum og afturhlutinn hallar aftur og ber keim af coupe lagi. Innanrýmið er fallegt og vandað og þar fara saman aukið rými, meiri þægindi og nýjasta tækni. Að innan líkist GLC talsvert stóra bróður sínum, hinum nýja GLE jeppa, og er ekki leiðum að líkjast.

GLC er í boði bæði með dísil- og bensínvélum sem eru aflmiklar en sparneytnar. Eldnseytiseyðslan lækkar að meðaltali um 19% miðað við fyrri gerð. GLC verður með 9G-TRONIC sjálfskiptingu sem staðalbúnað í öllum gerðum. Þær verða einnig fáanlegar með niðurfærslugír og mismunadrifslæsingu eins og GLE jeppanum.

GLC verður fyrst í stað í boði með fjórum vélarútfærslum, 170 og 204 hestafla dísilvélum sem skila 400 og 500 Nm í togi og 211 hestafla bensínvél þar sem togið er 350 Nm. Eyðslan í dísilútfærslunum er frá 5 lítrum miðað við blandaðan akstur samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda og eyðslan í bensínbílnum er frá 6,5 lítrum. Þá kemur GLC einnig í Hybrid útfærslu með tvinnaflrás eins og stóri bróðirinn GLE og þar fer saman mikil sparneytni og afkastageta en bensín og rafmótor skila bílnum samtals 323 hestöflum.

Þessi síða notar fótspor (e. cookies) vegna nauðsynlegrar virkni hennar og til að safna tölfræðigögnum með þeim tilgangi að gera síðuna betri.