Fyrsti Mercedes-Benz rafbíllinn frumsýndur í Eyjum

Fyrsti Mercedes-Benz rafbíllinn frumsýndur í Eyjum

Bílaumboðið Askja mun frumsýna nýjan B-Class 250e á bílasýningu í Nethamri í Vestmannaeyjum á morgun kl. 12-16. Um er að ræða fyrsta hreina rafbíllinn frá Mercedes-Benz. Auk B-Class 250e verða sex tegundir fólksbíla frá Mercedes-Benz til sýnis en bílarnir eru A-Class, GLE, GLC, GLA og GLS auk þess sem valið úrval af atvinnubílum verða á svæðinu m.a. Sprinter, Citan og Vito.

,,Það er mjög sjaldgæft að nýr bíll sé frumsýndur á landsbyggðinni en okkur finnst vel við hæfi að frumsýna fyrsta hreina rafbílinn frá Mercedes-Benz í Vestmannaeyjum því fjölmargir Eyjamenn hafa mikinn áhuga á því að rafbílavæða Vestmannaeyjar og gera hana að ,,eyjunni grænu." Það verður spennandi að kynna nýja rafbílinn B-Class 250e sem við teljum að sé mjög hentugur bíll fyrir Vestmannaeyinga sem og aðra landsmenn. Þetta er mjög spennandi lúxusbíll sem við teljum að muni vekja mikla athygli hér á landi. Mercedes-Benz hefur sett stefnuna á að koma fram með fleiri hreina rafbíla á næstunni og kemur það í kjölfarið á vel heppnuðum Plug-in Hybrid bílum þýska lúxusbílaframleiðandans. Rafbílar verða sífellt vinsælli hér á landi enda sérlega hagkvæmir og umhverfismildir bílar," segir Ásgrímur Helgi Einarsson, sölustjóri Mercedes-Benz fólksbíla hjá Öskju.

,,Við viljum með þessari sýningu í Netharmi bjóða íbúum Vestmannaeyja að skoða breiða og glæsilega línu Mercedes-Benz fólksbíla og atvinnubíla. Auk hins nýja B-Class 250e verðum við einnig með sérstaka áherslu á jeppalínuna frá Mercedes-Benz. Allir þessir bílar fást með 4MATIC fjórhjóladrifskerfi sem tryggir öryggi í akstri og hentar einstaklega vel fyrir íslenskar aðstæður. Við vonumst til að sjá sem flesta Eyjamenn á sýningunni á laugardag," segir Ásgrímur ennfremur.

Þessi síða notar fótspor (e. cookies) vegna nauðsynlegrar virkni hennar og til að safna tölfræðigögnum með þeim tilgangi að gera síðuna betri.